Ítalía reynir að tefja niðurstöðuna

Fundur leiðtoganna hófst í Brussel í dag.
Fundur leiðtoganna hófst í Brussel í dag. AFP

Ítalía reynir tefja það að sameiginleg niðurstaða fáist á fundi leiðtoga Evrópusambandsins sem hófst í Brussel í dag, um hvernig eigi að leysa úr málum flóttafólks sem streymir til Evrópu. Þetta gera Ítalir með því að bíða með að gefa upp afstöðu sína. Tilgangur Ítalíu mun vera að reyna að þvinga fram meiri aðstoð annarra Evrópuríkja við að takast á við mikinn straum flóttafólks til landsins. Þetta hefur AFP-fréttastofan eftir heimildamönnum.

„Eitt aðildarríki hefur dregið það að greina frá afstöðu sinni til ályktunarinnar, svo enginn ályktun hefur verið samþykkt,“ sagði talsmaður leiðtogaráðsins, Preben Aamann.

AFP hefur það eftir nokkrum heimildamönnum að Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sé sá sem tefji það að niðurstaða fáist, líkt og hann hafði hótað að gera áður en fundurinn hófst.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hefur sagt að Sikiley geti ekki lengur verið flóttamannabúðir Evrópu, en hefur neitað því ríkisstjórn landsins boðið harðlínustefnu í garð innflytjenda. Að hans sögn er um að ræða heilbrigða skynsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert