Undirbjuggu árás gegn múslimum

Lögreglan í Frakklandi að störfum.
Lögreglan í Frakklandi að störfum. AFP

Frönsk stjórnvöld hafa ákært tíu manns grunaða um að hafa tengst undirbúningi árásar á múslima í landinu. Um níu karlmenn og eina konu er að ræða og er fólkið á aldrinum 32-69 ára. Var það handtekið í samstilltum aðgerðum lögreglunnar víðsvegar um Frakkland.

Hópurinn kom fyrir dómara í gærkvöldi og hefur verið ákærður fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar. Nokkrir úr hópnum voru einnig ákærðir fyrir brot á vopnalögum og að hafa haft sprengjubúnað í fórum sínum.

Lögreglan tengir fólkið við öfgahópinn Action des Forces Operationnelles. Sá hópur er lítt þekktur en er sagður hvetja Frakka til að berjast gegn múslimum.

Hópurinn er grunaður um að hafa lagt á ráðin um árás gegn múslimum. 

Rifflar, skammbyssur og heimatilbúnar handsprengjur voru meðal þess sem lögreglan lagði hald á í húsleitum í París, á eyjunni Korsíku og víðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert