Merkel reynir að þóknast systurflokknum

Merkel og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á leiðtogafundi ESB í …
Merkel og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á leiðtogafundi ESB í liðinni viku. AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur lagt fram hugmyndir um aðgerðir til að takmarka flæði flóttamanna til landsins, samkvæmt skjali sem ætlað er samstarfsflokkum hennar í ríkisstjórn.

Lagt er til að hælisleitendur sem koma til Þýskalands eftir að hafa fyrst verið skráðir í öðru ríki verði færðir til lokaðra miðstöðva á borð við þeirra sem samið var um á leiðtogafundinum.

Merkel og forystumenn CSU, systurflokks Kristilegra demókrata í Bæjaralandi, hafa síðustu vikur deilt um málefni hælisleitenda. Horst Seehofer, innanríkisráðherra kemur úr CSU. Hann vill að þýsku lög­regl­unni verði heim­ilað að snúa öll­um hæl­is­leit­end­um við á lands­mær­um Þýska­lands sem ekki geta fram­vísað gild­um skil­ríkj­um sem og þeim sem þegar hafa sótt um hæli ann­ars staðar inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins. Merkel hef­ur hins vegar hingað til hafnað þeirri hug­mynd og viljað taka á málinu á vettvangi ESB.

Ákvörðun í anda leiðtogafundarins

Á leiðtogafundi Evrópusambandsins í vikunni voru málefni flóttamanna til umræðu og segir í skjalinu að þýsk stjórnvöld hafi náð samkomulagi við 14 ESB-ríki um að þau taki við hælisleitendum sem fyrst voru skráðir í ríkinu. Sú fullyrðing hefur þó verið dregin í efa en tvö ríkjanna, Ungverjaland og Tékkland, hafna því að slíkt samkomulag hafi náðst. „Þjóðverjar hafa ekki borið þetta upp við okkur og ég mun ekki skrifa undir þetta samkomulag,“ sagði Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands í yfirlýsingu. „Engar samningaviðræður hafa farið fram milli Tékklands og Þýskalands um þetta.“

Flóttamenn koma til hafnar á Möltu.
Flóttamenn koma til hafnar á Möltu. AFP

Á fundinum í Brussel sem stóð fram eftir nóttu samþykktu leiðtogar Evrópuríkjanna að heimila aðildarríkjum að koma upp lokuðum miðstöðvum þar sem gengið yrði úr skugga um stöðu hvers flóttamanns og ákveðið hverja eigi að senda úr landi.

Fjöldi þeirra sem koma ólög­lega til Evrópusambandsríkjanna hef­ur dreg­ist sam­an um 96% frá því að hann var mest­ur árið 2015. Þá hefur umsóknum um hæli í Þýskalandi fækkað um 20 % á fyrstu fimm mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert