Telja Norður-Kóreu auðga meira úran

Svo virðist sem stjórnvöld í Norður-Kóreu séu ekki að standa …
Svo virðist sem stjórnvöld í Norður-Kóreu séu ekki að standa við sinn hluta samningsins. AFP

Norður-Kórea hefur leynilega auðgað úran í auknum mæli til framleiðslu á kjarnavopnum síðustu mánuði, þvert á það samkomulag sem náðist milli Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrr í júní, um að dregið yrði úr framleiðslunni og stefnt yrði að kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga. Þetta kemur fram í nýrri í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar. The Guardian greinir frá.

Fréttastofa NBC hefur það eftir embættismönnum innan leyniþjónustunnar að gervihnattamyndir af svæðinu sýni mikla uppbyggingu á helstu kjarnorkurannsóknarstöð landsins í Yongbyon. Ekkert bendi til þess að framleiðslan hafi dregist saman eða henni hafi verið hætt, heldur þvert á móti. Segjast þeir hafa óyggjandi sannanir fyrir því að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu að reyna að blekkja Bandaríkjamenn.

Þessi þróun geri Trump erfiðara um vik að segja að fundur leiðtoganna hafi skilað árangri, líkt og hann hefur haldið fram. En hann lýsti því yfir eftir fundinn að engin kjarnorkuógn stafaði lengur af Norður-Kóreu.

Kim hefur ekki staðið við tvennt af því sem samið var um á fundinum; niðurrif eldflaugaprófunarsvæðis og afhendingu jarðneskra leifa bandarískra hermanna sem féllu í Kóreustríðinu. Bandaríkjamenn hafa hins vegar gefið út að þeir séu hættir fyrir fyrirhugaða heræfingu með Suður-Kóreu á Kóreuskaganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert