Erkibiskup dæmdur fyrir hylmingu

Frá réttarhöldum yfir öðrum kaþólskum presti í Ástralíu nýverið.
Frá réttarhöldum yfir öðrum kaþólskum presti í Ástralíu nýverið. AFP

Kaþólskur erkibiskup var í Ástralíu í dag dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir að halda barnaníði innan kirkjunnar leyndu á áttunda áratug síðustu aldar. Biskupinn er sá hæst setti innan kaþólsku kirkjunnar sem hefur verið dæmdur fyrir slíkan glæp. 

Dómurinn yfir Philip Wilson, sem nú gegnir embætti erkibiskups í Adelaide, er þyngsta mögulega refsingin í áströlsku réttarkerfi fyrir slíkt brot. Hann var dæmdur fyrir að hafa haldið hlífiskildi yfir presti í New South Wales sem var barnaníðingur. Í niðurstöðu dómsins er kveðið á um stofufangelsi sem væntanlega þýðir að Wilson þarf ekki að afplána dóminn í almennu fangelsi.

BBC hefur eftir dómaranum að Wilson hafi ekki sýnt neina iðrun né eftirsjá við réttarhöldin en þau hafa staðið yfir mánuðum saman. Hann getur sótt um reynslulausn eftir hálft ár. Wilson hefur ekki sagt af sér embætti þrátt fyrir að hafa afsalað sér réttindum og skyldum í starfi áður en dómur féll. 

Í maí komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að hann hefði brugðist þeirri skyldu sinni að tilkynna um starfsbróður sinn, James Patrick Fletcher, til lögreglu en Fletcher hafði gerst sekur um að hafa beitt altarisdrengi kynferðislegu ofbeldi.

Wilson var þá prestur í Maitland og hafði neitað fórnarlömbunum um aðstoð því hann vildi vernda orðspor kaþólsku kirkjunnar. Fletcher var árið 2004 dæmdur fyrir barnaníð í garð níu drengja og lést í fangelsi tveimur árum síðar. Wilson neitaði við réttarhöldin að hafa vitað af ofbeldi starfsbróður síns. 

Lögmenn erkibiskupsins reyndu að fá málinu gegn honum vísað frá á grundvelli þess að Wilson hefði verið greindur með Alzheimer. Eitt af fórnarlömbunum í málinu, Peter Creigh, greindi frá því fyrir rétti hvernig hann hafi lýst níðingsverkum Fletchers nákvæmlega fyrir Wilson árið 1976, fimm árum eftir að þau áttu sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert