Gefa 12 björgunarbáta til Líbýu

AFP

Ítalska ríkisstjórnin ætlar að gefa Líbýu tólf báta sem verða notaðir í baráttunni gegn mansali og til að draga úr fjölda flóttafólks sem kemur yfir Miðjarðarhaf til Evrópu.

Yfirlýsing ítalskra stjórnvalda kemur í kjölfar þess að nokkur ríki Evrópusambandsins hafa þrýst á Líbýu að annast björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Mjög er deilt um það meðal leiðtoga ríkja ESB hvernig eigi að taka á málefnum flóttafólks sem leitar til álfunnar.

Bátagjöfin var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar og er henni ætlað að styrkja strandgæslu Líbýu og tryggja að hún geti tekist á við verkefni sín við að bjarga flóttafólki á Miðjarðarhafi. 

Ítalía mun bera ábyrgð á viðhaldi bátanna til ársloka og þjálfa starfsmenn líbýsku strandgæslunnar. Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneyti Ítalíu er gjöfin metin á 2,5 milljónir evra. 

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er ekki nóg að gert og að við verðum að vinna að því að koma á jafnvægi á ástandinu, styrkja lagareglur og vernda heiður fólks á þessu svæði,“ segir samgönguráðherra Ítalíu, Danilo Toninelli, í yfirlýsingunni.

Undanfarnar vikur hafa leiðtogar ESB gagnrýnt aðgerðir björgunarskipa á vegum sjálfstætt starfandi hjálparsamtaka á Miðjarðarhafi. Að áhafnir þeirra hafi með óbeinum hætti aðstoðað mansalshringi. Láta eigi stjórnvöld í Líbýu um björgun á hafi og snúa þeim aftur til Líbýu í stað þess að reyna að komast til hafnar í Evrópu. En hjálparsamtök segja á móti að flóttafólkið sé í hættu í Líbýu þar sem hætta er á að það sé misnotað og nauðgað í móttökumiðstöðvum. Yfir eitt þúsund flóttamenn hafa drukknað á þessari leið frá áramótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert