Grunaðir um aðild að Ríki íslams

Lögregluþjónn við Schiphol-flugvöllinn í Hollandi þar sem mennirnir voru handteknir …
Lögregluþjónn við Schiphol-flugvöllinn í Hollandi þar sem mennirnir voru handteknir í morgun. AFP

Tveir karlmenn, grunaðir um að hafa gengið til liðs við Ríki íslams, voru handteknir við komuna til Hollands í morgun á Schiphol-alþjóðaflugvellinum í Amsterdam.

AFP-fréttaveitan greinir frá því að mennirnir hafi verið dæmdir í sex ára fangelsi í Tyrklandi eftir að þeir voru handteknir þar í landi 2016 þegar þeir sneru til Tyrklands eftir dvöl í Sýrlandi þar sem talið er að þeir hafi gengið til liðs við Ríki íslams.

Mennirnir sem báðir eru 23 ára að aldri áfrýjuðu refsingunni sem þeim var gerð í Tyrklandi og var þeim heimilað að snúa aftur til Hollands á meðan þeir biðu niðurstöðu áfrýjunardómsins, en þeir bíða einnig dóms í Hollandi fyrir þátttöku sína í starfsemi Ríkis íslams.

Talið er að þeir hafi gengið til liðs við samtökin árið 2014 en síðar ákveðið að þeir vildu snúa aftur til Hollands.

Samkvæmt upplýsingum frá saksóknaraembættinu í Hollandi mæta mennirnir fyrir hollenskan dómara í vikunni. Alls hafa um 280 manns yfirgefið Holland frá upphafi borgarastríðsins í Sýrlandi árið 2011 og gengið til liðs við vígamenn þar í landi. Leyniþjónusta Hollands, AVID, áætlar að 185 þeirra séu enn á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert