Fengu að koma að landi í Barcelona

Skip mannúðarsamtakanna Proactiva Open Arms kemur inn í höfnina í …
Skip mannúðarsamtakanna Proactiva Open Arms kemur inn í höfnina í Barcelona í dag. AFP

Skip í eigu spænsku félagasamtakanna Proactiva Open Arms lagðist að bryggju í Barcelona í dag með sextíu flóttamenn innanborðs. Hópnum hafði verið bjargað úr hafinu undan ströndum Líbíu. Ítölsk yfirvöld höfðu áður neitað að taka við fólkinu.

Starfsmenn Rauða krossins munu nú kanna ástand fólksins en í hópnum eru 50 karlmenn, fimm konur og fimm börn, þar af þrjú sem eru án fylgdar. Í kjölfar aðhlynningar verður hópurinn fluttur í skýli.

„Ástand þeirra er gott miðað við aðstæður,“ segir Anabel Mortens, forsvarsmaður björgunarverkefnisins. „Enginn var alvarlega veikur og þau eru hamingjusöm því við sögðum þeim að yfirvöld hér hefðu viljað fá þau.“

Fyrir um tveimur vikum kom skip á vegum franskra félagasamtaka, Aquarius, til hafnar í Valencia með um 630 flóttamenn um borð. Stjórnvöld á Ítalíu og Möltu höfðu þá bannað þeim að koma þar að landi. Sú ákvörðun var harðlega gagnrýnd og í kjölfarið leyfðu yfirvöld á Möltu öðru skipi með um 233 flóttamenn um borð að koma inn til hafnar.

Spenna vegna innflytjenda- og flóttamannamála fer stigvaxandi innan Evrópusambandsins. Í síðustu viku samþykktu leiðtogar þess samkomulag sem m.a. kveðjur á um betri dreifingu flóttafólks meðal aðildarríkjanna.

Í samkomulaginu var einnig kveðið á um að stjórnvöld í hverju landi fyrir sig væri í sjálfvald sett að koma upp lokuðum móttökubúðum þar sem flóttamenn væru látnir bíða á meðan unnið er úr þeirra málum, m.a. hælisumsóknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert