Komust í snertingu við óþekkt efni

Lögreglumaður stendur vaktina utan við húsið í Amesbury, þar sem …
Lögreglumaður stendur vaktina utan við húsið í Amesbury, þar sem fólkið fannst. AFP

Maður og kona eru í alvarlegu ástandi á spítala í Bretlandi eftir að hafa komist í snertingu við óþekkt efni, sem talið er að gæti mögulega verið efnavopn af einhverju tagi. Þau fundust meðvitundarlaus í húsi í bænum Amesbury síðastliðinn laugardag.

Bærinn er skammt frá Salisbury, þar sem eitrað var fyrir rússneska njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu í marsmánuði.

BBC fjallar um málið og greinir frá því að talið sé að fólkið heiti Charlie Rowley og Dawn Sturgess, en þau eru 45 og 44 ára gömul.

Efnin sem talið er að fólkið hafi komist í snertingu við eru nú rannsökuð af efnavopnasérfræðingum breskra yfirvalda, en talið er mögulegt að parið hafi komist í snertingu við leifar af efnunum sem notuð voru til að láta til skarar skríða gegn Skripal-feðginunum.

Talið er að fólkið hafi mögulega komist í snertingu við …
Talið er að fólkið hafi mögulega komist í snertingu við leifar af efnavopnum í þessum almenningsgarði í Salisbury. AFP

Staðir sem parið er sagt sækja reglulega í bæjunum Amesbury og Salisbury hafa verið girtir af og íbúar hafa verið látnir vita af því að þeir geti búist við því að sjá lögreglu oftar á ferðinni en þeir eiga alla jafna að venjast.

Neyðarnefnd bresku ríkisstjórnarinnar, Cobra-nefndin svokallaða, kom saman í dag til að ræða málið. Yfirvöld segjast taka málinu mjög alvarlega.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert