Nýtt eitrunarmál í Salisbury

AFP

Karl og kona á fertugsaldri eru þungt haldin eftir að hafa orðið fyrir einhvers konar eitrun í litlu þorpi skammt frá Salisbury. Fólkið fannst meðvitundarlaust í húsi í þorpinu Amesbury á laugardaginn. Fyrr á árinu fundust Skripal-feðginin meðvitundarlaus á bekk í Salisbury en eitrað hafði verið fyrir þeim.

Að sögn lögreglu er parið á gjörgæsludeild sjúkrahússins í Salisbury en ekki er vitað hvað gerðist. Í fyrstu var talið að þau hefðu veikst af því að taka annaðhvort heróín eða krakk-kókaín af lélegum gæðum. 

Hins vegar hafa frekari rannsóknir leitt í ljós að mögulegt sé að um annars konar eitrun sé að ræða. Lögregla hefur því girt af svæðið í kringum húsið þar sem þau fundust og þar sem vitað er að þau voru á ferðinni skömmu áður. 

Talsmaður embættis landlæknis, Public Health England (PHE), segir að ekki sé talið að almenningur sé í hættu en frekari upplýsingar verði veittar um leið og þær berist.

Sergei Skripal bjó í Salisbury og dóttir hans, Julia, var í heimsókn hjá honum þegar þau fundust meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð í bænum 4. mars. Þau dvöldu lengi á sjúkrahúsinu í Salisbury en hafa náð heilsu. Bresk yfirvöld hafa sakað Rússa um að bera ábyrgð á málinu en því neita rússnesk yfirvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert