Bretar munu þurfa að biðjast afsökunar

Bretar eiga eftir að þurfa að biðjast afsökunar vegna framferðis síns í tengslum við taugagaseitrunarmálin. Þetta sagði Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, í samtali við blaðamenn fyrr í dag.

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, sagði í morgun að tími væri til kominn að Rússar stigu fram og útskýrðu hvað væri á seyði vegna taugagaseitrananna í Bretlandi. Tveir voru fluttir þungt haldnir á sjúkrahús á laugardaginn með taugagaseitrun sem bresk stjórnvöld segja vera sama eitur og notað var til að eitra fyrir rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans fyrr á árinu. 

Zakharova sagði við blaðamenn að Bretar eigi að biðjast afsökunar á orðum breska innanríkisráðherrans í morgun. „Ég er viss um að eftir allt sem ríkisstjórn Theresu May hefur gert, eigi þessi ríkisstjórn og fulltrúar hennar eftir að þurfa að biðja Rússa og alþjóðasamfélagið afsökunar,“ sagði Zakharova. „Samkvæmt bresku hefðinni þá mun það ekki gerast strax. En það kemur að því.“

Maria Zakharova, talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands.
Maria Zakharova, talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert