Málið allt hið furðulegasta

Breska ríkisstjórnin hefur verið boðuð á neyðarfund vegna pars sem fannst fárveikt eftir að hafa orðið fyrir taugagaseitrun á sunnudag. Um er að ræða sömu tegund af eitri og fannst í líkama Skripal-feðginanna í mars.

Innanríkisráðherra landsins, Sajid Javid, mun stýra fundinum en hryðjuverkadeild lögreglunnar annast rannsóknina í þorpinu Amesbury. Þorpið er skammt frá Salisbury þar sem rússneski njósnarinn Sergei Skripal og dóttir hans, Julia, fundust meðvitundarlaus á bekk 4. mars. Staðfest hefur verið að um sama eitur er að ræða, Novichok, en það var framleitt af Sovétmönnum á sínum tíma. Er jafnvel rætt um möguleikann á því að fólkið, sem varð fyrir eitruninni núna, hafi komist í snertingu við leifar eitursins sem var notað á feðginin.

„Líkurnar á því að málin tvö tengist eru miklar,“ segir Neil Basu, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar. 

„Helsta forgangsmál rannsóknarteymisins núna er að staðfesta hvernig þessar tvær manneskjur komust í snertingu við taugagasið,“ segir Basu. Hann segir að lögreglan hafi ekki hugmynd um hvernig það hafi gerst og biður almenning um að forðast það í lengstu lög að snerta eitthvað sem fólk veit ekki hvað er.

Að sögn lögreglu er það í höndum vísindamanna að finna út hvort taugagasið núna sé úr sömu framleiðslu og það sem notað var í mars. Ekkert bendi til þess að árásinni hafi verið beint að fólkinu, Charlie Rowley og Dawn Sturgess. Né heldur að þau hafi nýlega verið á þeim stöðum sem mögulega urðu fyrir eitrun í tilviki Skripal-feðginanna og fátt bendi til þess að um almannahættu sé að ræða.

Dawn Sturgess, sem er 44 ára gömul, var fyrri til þess að missa meðvitund en óskað var eftir sjúkrabíl á staðinn klukkan 09:15 á sunnudag. Charlie Rowley, sem er 45 ára gamall, veiktist síðar og var óskað eftir sjúkrabíl fyrir hann klukkan 14:30 í sama hús í Amesbury. Í fyrstu var talið að þau hefðu neytt eiturlyfja eða annarra lyfja.

Sýni úr þeim báðum voru send á Porton Down-rannsóknarstofuna á mánudag vegna sjúkdómseinkenna þeirra. Þau eru bæði í lífshættu á gjörgæsludeild héraðssjúkrahússins í Salisbury, á sömu deild og Skripal-feðginin lágu. 

Íbúi í þorpinu, Sam Hobson, 29 ára, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að hann sé vinur þeirra og hafi verið viðstaddur þegar Rowley veiktist. „Hann svitnaði mjög mikið, slefaði mikið og það var ekki hægt að tala við hann. Hann gaf frá sér skrýtin hljóð og hristist til og frá,“ segir Hobson. 

Íbúar í Salisbury segjast vera skelfingu lostnir enda stutt síðan eitrað var fyrir Skripal. Málið hafði mikil áhrif á alla þar og hefur lögregla sett upp hjálparlínur fyrir íbúa sem þeir geta hringt í og fengið aðstoð og stuðning.

Lögreglan biður alla þá sem hafa farið á þá fimm staði sem vitað er að konan og karlinn heimsóttu á laugardag og sunnudag að þvo fatnað sem notaður var og eins hreinsa annað sem fólk var með. Búið er að girða af almenningsgarð, gistiskýli fyrir heimilislausa í Salisbury, apótek, kirkju og hús í Amesbury.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert