Segir að hverjum steini verði velt við

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Angela Merkel Þýskalandskanslari. AFP

Breska lögreglan mun velta við hverjum steini til þess að leiða til lykta hvað hafi valdið taugaeitrun tvímenninganna sem fluttir voru á sjúkrahús þungt haldnir eftir að hafa orðið fyrir Novichok-taugaeitrun undir lok síðustu viku.

Þetta sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í morgun en hún er þessa stundina stödd í Þýskalandi í opinberri heimsókn. Fyrr í morgun sagði innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, tímabært að Rússar stigu fram og greindu frá því hvað væri á seyði.

„Það er augljóslega truflandi að sjá tvo einstaklinga til viðbótar verða fyrir Novichok-eitrun í Bretlandi. Ég veit að lögregla mun velta við hverjum steini í rannsókn sinni,“ sagði May en hún þakkaði sömuleiðis Angelu Merkel Þýskalandskanslara fyrir stuðning Þjóðverja í kjölfar þess að eitrað var fyrir rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skrípal í mars á þessu ári. 

Tvö voru flutt á sjúkrahúsið í smábænum Amesbury á laugardag, nærri borginni Salisbury, þar sem eitrað var fyrir Sergei og dóttur hans Yuliu Skripal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert