Hótað lífláti eftir sjálfsmark

Fernandinho sést hér fara af hóteli liðsins í Rússlandi í ...
Fernandinho sést hér fara af hóteli liðsins í Rússlandi í dag. AFP

Brasilíski miðjumaðurinn Fernandinho á ekki sjö dagana sæla eftir að hafa skorað sjálfsmark í leiknum gegn Belgíu í gær. Honum hafa borist líflátshótanir og eins hefur kynþáttahatur gegn honum og fjölskyldu hans fyllt svæði þeirra á samfélagsmiðlum.

Fernandinho sést hér horfa á eftir boltanum í eigið mark.
Fernandinho sést hér horfa á eftir boltanum í eigið mark. AFP

Ýmsir líkja leikmanninum við apa og aðrir hóta því að myrða hann. Brasilía tapaði 1-2 gegn Belgíu og er því heimsmeistaradraumurinn að engu orðinn fyrir þessa miklu knattspyrnuþjóð. Eiginkona leikmannsins, Rosa Glaucia, hefur ekki farið varhluta af árásum og fylltist Instagram-aðgangur hennar af hótunum og móðgunum.

Móðir Fernandinho neyddist til þess að loka Instagram-síðu sinni vegna óhróðurs sem þangað rataði og þykir mörgum netverjum eiginlega nóg komið.

Hafa ýmsir tekið höndum saman um að verja leikmanninn og fjölskyldu hans. Er bent á að rasismi sé aldrei réttlætanlegur og skipti þar engu hvort einhver gerir sjálfsmark. Í gærkvöldi brast sjónvarsfréttakonan Glenda Kozlowski á TV Globo í grát þar sem hún lýsti hræðslu og vanlíðan fjölskyldu Fernandinho

Fernandinho í leikslok í gær.
Fernandinho í leikslok í gær. AFP
mbl.is