19.000 opinberum starfsmönnum sagt upp

Forseti Tyrklands, Tayyip Erdogan, var nýverið endurkjörinn í embætti.
Forseti Tyrklands, Tayyip Erdogan, var nýverið endurkjörinn í embætti. AFP

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa sagt upp tæplega 19 þúsund opinberum starfsmönnum. Tilskipun þess efnis var birt í dag en stjórnvöld telja að starfsmennirnir tengist hópum eða samtökum sem ógna þjóðaröryggi.

Tæplega níu þúsund lögreglumenn voru leystir frá störfum, rúmlega þrjú þúsund hermenn, um tvö þúsund starfsmenn flughersins og rúmlega ellefu hundruð sjóliðar. Yfir þúsund starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins var sagt upp, 649 herþjálfuðum lögreglumönnum og 192 starfsmönnum strandgæslunnar. Þá var 199 háskólamenntuðum opinberum starfsmönnum sagt upp störfum.

Uppsagnirnar má rekja til misheppnaðrar valdaránstilraunar sem gerð var sumarið 2016 þar sem reynt var að steypa forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, af stóli. Neyðarástand er enn í gildi sem gefur stjórnvöldum heimild til að grípa til aðgerða líkt og fjöldauppsagna. Neyðarástandinu á að ljúka 19. júlí. Á þessum tæpu tveimur árum hafa yfir 110.000 opinberir starfsmenn verið reknir úr störfum sínum.

Tyrknesk stjórnvöld telja múslimaklerkinn Fethullah Gulen standa að baki valdaránstilrauninni. Hann er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum og neitar alfarið að tengjast valdaráninu. Gulen segir hreyfingu sína alfarið friðsama en stjórnvöld kjósa að kalla hreyfinguna Hryðjuverkasamtök Fethulla. Yfir 77.000 hafa verið handtekin vegna tengsla við Gulen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert