Á ekki von á frekari refsiaðgerðum

AFP

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, segir að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að bæta við refsiaðgerðum á hendur Rússum vegna taugagaseitrunar í Wiltshire. Hann segir að eitrið komi upprunalega frá Rússum en varar fólk við að hrapa að ályktunum. 

Javid ræddi við fréttamenn í Amesbury eftir að hafa heimsótt sjúkrahús þar sem karl og kona eru þungt haldin vegna taugagaseitrunar sem þau urðu fyrir um síðustu helgi.

Sjúkdómseinkenni þeirra eru þau sömu og hjá feðginunum Sergei og Julia Skripal sem urðu fyrir taugagaseitrun í mars. Eitrið sem notað var heitir Novichok og er rakið til Rússa.

Talið er að Dawn Sturgess, 44 ára og Charlie Rowley, sem er 45 ára, hafi komist í snertingu við eitrið með því að snerta eitthvað sem var með leifar af Novichok-eitrinu.

Javid segir að sérfræðingar á sviði eiturefna telji að um nákvæmlega sama eitur sé að ræða núna og var notað í mars. Þá var vitað að Rússar stóðu á bak við eitrunina að hans sögn þrátt fyrir að rússnesk yfirvöld neiti því.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert