Nú eru eftir níu – tímalína björgunar

Fjórir drengir eru komnir á sjúkrahús og virðast vera við ágæta heilsu. Enn bíða ættingjar og vinir milli vonar og ótta um björgun þeirra níu sem enn eru inni í hellinum, átta drengir og þjálfari þeirra. Ljóst er að foreldrum þeirra verður ekki svefnsamt í nótt en aðgerðir hefjast að nýju klukkan 8 að staðartíma, klukkan eitt í nótt. 

Fimmtán dagar eru liðnir frá því drengirnir fóru á fótboltaæfingu grunlausir um hvað biði þeirra. Hér er rakin tímalína atburða síðustu daga

Laugardagur 23. júní

Tólf drengir á aldrinum 11-16 ára fara ásamt 25 ára gömlum þjálfara sínum inn í Tham Luang-hellinn í norðurhluta Taílands eftir æfingu. Mikil rigning er á svæðinu enda monsúntímabilið hafið.

Um kvöldið hafði móðir eins þeirra samband við lögreglu þar sem drengurinn skilaði sér ekki heim eftir æfinguna.

Lögreglan fer að skyggnast um og finnur reiðhjól drengjanna læst við girðingu, skó og fótboltaskó þeirra við innganginn í hellinn Tham Luang Nang Non sem þýðir Glæstur hellir hinnar sofandi konu. Hellirinn er í þjóðgarði í Chiang Rai-héraði og hefur hann aldrei verið rannsakaður í þaula. Vitað er að hann er að minnsta kosti um 10 kílómetrar að lengd og samanstendur af hellismunnaneti í Doi Nang Non-fjallgarðinum.

Sunnudagur 24. júní

Þjóðgarðsyfirvöld og lögregla finna bæði fingraför og fótspor sem rakin eru til drengjanna og ættingjar þeirra safnast saman fyrir utan hellismunnann. Í ljós kemur að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hópurinn fer í rannsóknarleiðangur inn í hellinn. Vegna úrkomunnar er hluti af hellinum undir vatni og óttast er að annaðhvort hafi drengirnir drukknað eða þeir séu innilokaðir í hellinum.

Mánudagur 25. júní 

Kafarar í sérsveit taílenska sjóhersins fara inn í hellinn að leita drengjanna. Bráðabirgðahelgiskrín er sett upp fyrir foreldrana til þess að biðjast fyrir og að færa fórnargjafir. Ekkert lát er á úrkomunni.

Þriðjudagur 26. júní

Kafarar ná að gatnamótum (T-laga) eftir að hafa synt nokkra kílómetra inn í hellinn en neyðast til þess að hörfa undan ört vaxandi vatnshæð sem hindrar þá við að komast að syllunni sem talið er drengirnir hafi forðað sér upp á. Syllan er nefnd Pattaya-ströndin.

Miðvikudagur 27. júní

Hópur sérfræðinga úr bandaríska hernum á Kyrrahafi kemur á svæðið. Um er að ræða rúmlega 30 manns með ýmiss konar sérhæfingu, þar á meðal sérsveitarmenn úr flughernum og fólk sem er sérhæft í að bjarga sér út úr gríðarlega krefjandi og um leið erfiðum aðstæðum. 

Með þeim eru þrír sérhæfðir breskir kafarar sem fara inn í hellinn en þurfa fljótlega að snúa aftur vegna flóða. 

Fimmtudagur 28. júní 

Gert er tímabundið hlé á köfun vegna vatnselgsins inni í hellinum í úrhellisrigningu. Settar eru upp vatnsdælur og þær látnar ganga allan sólarhringinn við að dæla upp vatni úr hellinum og drónar sendir af stað til þess að leita nýrra loftopa á hellinum.

Föstudagur 29. júní

Leiðtogi herforingjastjórnarinnar í Taílandi, Prayut Chan-O-Cha, kemur á vettvang og leiðir hugleiðslu ættingja og björgunarfólks ásamt því að taka þátt í að elda og stappa stálinu í fjölskyldur drengjanna. Hann hvetur þau til þess að gefa ekki upp vonina um að drengirnir finnist á lífi.

Laugardagur 30. júní

Heldur dregur úr úrkomunni og kafararnir komast lengra inn í hellinn en eru samt sem áður langt frá þeim stað sem talið er að drengirnir séu.

Sunnudagur 1. júlí

Kafararnir komast lengra inn í hellinn og aðgerðamiðstöð er sett upp inni í hellinum. Hundruðum loftkúta er komið fyrir þar ásamt vistum.

Mánudagur 2. júlí 

Loksins gerðist kraftaverkið – drengirnir tólf og þjálfari þeirra finnast á lífi seint á mánudagskvöldi en þeir eru um það bil 400 metra fyrir innan Pattaya-ströndina svokölluðu. Ættingjar og björgunarteymið fyrir utan hellinn fagna fréttunum en fljótlega er það spurningin um hvernig hægt verði að bjarga þeim sem yfirtekur allt.

Þriðjudagur 3. júlí

Mat og lyfjum er komið til hópsins, þar á meðal kaloríusprengjum í gelformi auk verkjalyfja við mikinn fögnuð drengjanna sem eru orðnir aðframkomnir af hungri. Allt bendir til þess að það geti tekið marga mánuði að koma hópnum út úr hellinum þar sem sífellt rignir og rignir.

Miðvikudagur 4. júlí

Yfirstjórn björgunaraðgerða greinir frá því að verið sé að kenna drengjunum að nota kafaragrímur og öndunarbúnað. Unnið er að því að dæla vatni út úr hellinum á sama tíma og veðurspáin bendir til þess að það muni bæta enn frekar í úrhellið næstu daga. 

Fimmtudagur 5. júlí 

Ljóst verður að tíminn vinnur ekki með björgunaraðgerðunum og aðgerða er þörf strax. Vegna rigningarinnar sé ljóst að það verður að bjarga drengjunum út sem fyrst og í örvæntingu er leitað að mögulegum leiðum inn í hellinn í gegnum þak hans.

Föstudagur 6. júlí 

Áfall fyrir alla þá sem koma að aðgerðunum – kafari sem hefur annast flutning á súrefniskútum til drengjanna deyr á leiðinni út úr hellinum. Dauði Saman Kunan ýtir undir alvarlegar efasemdir um öryggismál við björgun um þröng og vatnsósa göngin.

Yfirmaður sérsveitar taílenska sjóhersins segir að súrefnisstaðan hafi versnað mjög inni í hellinum. Hann varar við því að glugginn til þess að bjarga drengjunum út sé mjög takmarkaður. Hann verður fyrstur til þess að greina frá því opinberlega að ekki sé mögulegt að bíða þangað til monsúntímabilinu lýkur.

Laugardagur 7. júlí

Yfirmaður björgunaraðgerða, Narongsak Osottanakorn, segir að drengirnir séu ekki færir um að kafa út úr hellinum. Að minnsta kosti ekki strax. Kafarar koma með skilaboð frá þjálfara drengjanna til foreldra þeirra þar sem hann biður þá afsökunar. 

Búið er að bora yfir 100 loftop inn í hellinn í örvæntingarfullri tilraun til þess að koma drengjunum á lífi út úr hellinum.

Sunnudagur 8. júlí

Yfirvöld greina frá því að von sé á gríðarlegri úrkomu á næstunni og því sé ekki hægt að bíða lengur. Björgunaraðgerðir hefjast. Þrettán útlendir kafarar í heimsklassa og kafarar úr sérsveit taílenska sjóhersins fara inn í hellinn og björgunin hefst klukkan 10 árdegis að staðartíma, klukkan 3 að nóttu að íslenskum tíma.

Komið er með fyrsta drenginn út úr hellinum klukkan 17:40 að staðartíma, klukkan 12:40 að íslenskum tíma. Alls tókst að koma fjórum drengjum út úr hellinum í dag  og eru þeir komnir á sjúkrahús í Chiang Rai. Drengirnir eru allir við góða heilsu. 

Hlé var gert á aðgerðum skömmu fyrir klukkan 21 að staðartíma, klukkan 14 að íslenskum tíma en verður framhaldið á morgun. Enn eru átta drengir auk þjálfarans inni í hellinum.

Hér er hægt að skoða góða grafík frá aðstæðum

 

 

AFP
mbl.is
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Togbekkur fyrir bakið á 44.000 .
Togbekkur sem kemur bakinu þínu í lag Togbekkur fyrir hryggjaliðina og bakverki...
Antiksalan
Vöruúrval fyrir fagurkera Gjafavöru, jólaskeiðar, jólaóróar, jólaplattar, B&G po...