Stýrimaður og vélstjóri stökkva frá borði

Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.
Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Hari

„Þetta er eins og stýrimaðurinn og vélstjórinn stökkvi frá borði um leið og það gefur á bátinn,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur við mbl.is. Boris Johnson utanríkisráðherra Bretlands og David Davis, ráðherra útgöngu úr Evrópusambandinu, hafa sagt af sér.

Afsögn þeirra kemur í kjölfar óánægju harðlínu­manna í út­göngu­mál­um með nýja áætl­un stjórn­ar Th­eresu May um hvernig sam­skipt­um Evr­ópu­sam­bands­ins og Breta skuli háttað eft­ir út­göng­una.

Auðvitað er það nú þannig að það voru fengnir tveir ráðherrar til að stýra Brexit-útgöngunni, David Davis og Boris Johnson. Þeir hafa haft tækifæri í alllangan tíma til að skila þeirri niðurstöðu sem þeir fengu umboð til með kosningunni,“ segir Eiríkur.

Hann bætir við að þeim hafi ekki tekist að skila þeirri niðurstöðu og séu nú stokknir frá borði. „Þeim hefur ekki tekist það ætlunarverk sem þeir lögðu upp með og sögðu að væri frekar auðsótt.“

Boris Johnson sagði af sér í dag.
Boris Johnson sagði af sér í dag. AFP

Eiríkur kallar afsögn Johnson „pólitíska loftfimleika“ og segir ljóst að hann sé að stilla sér upp sem áskorandi Theresu May. „Hvort hann fari beint að henni og hefji baráttu fyrir því að það verði lýst yfir vantrausti gegn henni vitum við ekki. Hann er í það minnsta að stilla sér upp sem valkosti gegn henni.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Hann segir stöðu May snúna og að hún sé ekki sterk. „May stendur frammi fyrir því að hafa kosið gegn Brexit en eiga síðan að stýra útgöngunni með ósættanleg sjónarmið innanborðs í flokknum og ríkisstjórninni. Núna þegar hún taldi sig hafa náð samkomulagi um að ekki yrði farið í þessa hörðustu útgáfu af útgöngunni þá veit maður ekki nákvæmlega hver staða hennar er í augnablikinu en hún er ekki sterk, það blasir við,“ segir Eiríkur og bætir við að ef til vill hafi forsætisráðherrann mögulega á að ná einhverri samstöðu með þorra þingflokksins sem yrði studd af Verkamannaflokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert