Yfir 100 létust í flóðunum

Talið er að yfir hundrað séu látnir í flóðum og aurskriðum vegna metúrkomu í Japan. Yfir fimmtíu er enn saknað. 

Frá því á fimmtudag hefur úrkoman í vesturhluta Japans verið þrisvar sinnum meiri en í meðalári. Tvær milljónir manna hafa orðið að yfirgefa heimili sín. Ár flæða yfir bakka sína og aurskriður hafa fallið. 

„Við höfum aldrei upplifað annað eins,“ hefur BBC eftir veðurfræðingi í Japan. 

Björgunarmenn hafa hafið leit í eðjunni að fólki.

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að nú hafi dregið úr rigningunni og að vatn í ám sé tekið að sjatna. Af þeim sökum sé nú hægt að hefja björgunaraðgerðir á svæðum sem urðu verst úti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert