Ellilífeyrisþegi barinn til óbóta

Rodolfo Rodriguez varð fyrir fólskulegri líkamsárás.
Rodolfo Rodriguez varð fyrir fólskulegri líkamsárás. Ljósmynd/Twitter

„Ég get ekki gengið,“ sagði hinn 91 árs gamli Rodolfo Rodriguez sem var barinn til óbóta af hópi fólks þar sem hann fór í göngutúr á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí. Árásarmennirnir öskruðu á Rodriguez að hann ætti að hypja sig aftur til Mexíkó.

Rodriguez, sem verður 92 ára í september, segir í samtali við blaðamann CNN að hann hafi aldrei fundið jafnmikið til á ævinni. Þegar árásin átti sér stað var hann í heimsókn hjá barnabarni sínu sem býr í nágrenni Los Angeles en Rodriguez kemur þangað að jafnaði tvisvar á ári.

„Allir í hverfinu þekkja afa,“ sagði barnabarnið, Erik Mendoza.

Laug að Rodriguez ætlaði að stela dóttur hennar

Rodriguez greinir frá því að hann hafi verið að ganga fram hjá almenningsgarði þegar kona, sem var á gangi með barn, réðst skyndilega á hann. Konan lamdi Rodriguez með múrsteini og fékk nokkra menn til að hjálpa sér við að lúskra á gamla manninum.

„Ég rakst ekki einu sinni utan í barnið hennar. Ég gekk fram hjá henni og hún ýtti mér og lamdi mig þar til hún fékk nóg,“ sagði Rodriguez. Konan sagði mönnunum, sem aðstoðuðu hana við barsmíðarnar, að Rodriguez hefði reynt að ræna dóttur hennar. Þeir spörkuðu í hann þar til hann lá alblóðugur á gangstéttinni.

Lögreglan leitar að konu sem grunuð er um árásina og þremur eða fjórum karlmönnum. Yfirvöld vita ekki hvort vopn voru notuð eða hvers vegna fólkið réðst á Rodriguez.

„Farðu til Mexíkó“

Vitni sá þegar kona lamdi Rodriguez ítrekað í höfuðið með múrsteini. „Ég heyrði hana segja: „Farðu aftur í landið þitt, farðu til Mexíkó.“ Þegar ég reyndi að taka atvikið upp á símann henti hún múrsteini í áttina að bílnum mínum.“

Rodriguez kjálkabrotnaði, kinnbeinsbrotnaði, tvö rifbein brotnuðu og hann er marinn á andliti, baki og kvið eftir árásina. Hann dvaldi í sex klukkustundir á spítala eftir árásina.

„Við teljum okkur vita hverjir árásarmennirnir eru en viljum að lögreglan finni þá,“ sagði barnabarnið, Mendoza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert