Fá lengri frest til að sameina fjölskyldur

AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa fengið lengri frest til þess að sameina fjölskyldur á flótta sem hefur verið tvístrað á landamærunum. Dolly M. Gee, alríkisdómari í Los Angeles, veitti stjórnvöldum lengri frest í gærkvöldi en um er að ræða börn yngri en fimm ára sem hafa verið skilin að frá foreldrum sínum. 

Greint var frá ákvörðun dómarans eftir að lögfræðingur stjórnvalda sagði að um helmingur þeirra 102 barna yngri en fimm ára, sem voru tekin af foreldum sínum, yrði kominn til foreldra sinna áður en fyrri frestur rynni út sem er síðar í dag. Börnin eru meðal þeirra 2.300 barna sem voru aðskilin frá foreldrum á landamærunum ef fólkið kom með ólöglegum hætti til Bandaríkjanna. Var það gert í samræmi við stefnu stjórnvalda um að sýna ekkert umburðarlyndi við slíkar aðstæður.

Margir þeirra sem koma með þessum hætti til Bandaríkjanna eru að flýja ofbeldi skipulagðra glæpasamtaka og fátækt í Mið-Ameríku. Trump skrifaði undir tilskipun um að hætt yrði að skilja börn frá foreldrum sínum 20. júní eftir að hafa verið gagnrýndur harðlega, innanlands sem utan, fyrir framkomu bandarískra stjórnvalda í garð barna. Með því vildi Trump að börnunum yrði haldið í varðhaldi ásamt foreldrum sínum. 

AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið óskaði eftir því við alríkisdómara að tilskipun frá árinu 1997 yrði breytt en samkvæmt henni er ekki heimilt að halda börnum í varðhaldi í meira en 20 daga á meðan mál foreldranna er tekið fyrir í dómskerfinu.

Dómarinn, Dolly Gee, kvað upp úrskurð sinn seint í gærkvöldi þar sem hún hafnar hugmyndinni um að halda börnum í varðhaldi líkt og ríkisstjórnin sóttist eftir. Hún segir að börnin beri ekki ábyrgð og að slíkt skipulag, að halda börnum í varðhaldi, væri ekki börnunum fyrir bestu.

New York Times greindi frá því að yfirvöld ættu í verulegum erfiðleikum með að sameina foreldra og börn þar sem að í einhverjum tilvikum hefði upplýsingum verið eytt eða þær horfið.

mbl.is