Geta ekki notað kafbát Musks

Verkfræðingurinn og frumkvöðullinn Elon Musk.
Verkfræðingurinn og frumkvöðullinn Elon Musk. AFP

Elon Musk, forstjóri Tesla, fór með lítinn kafbát á vettvang björgunaraðgerðanna við taílenska hellinn. Hann hafði boðið björgunarteyminu kafbátinn til afnota en það hefur nú kurteislega verið afþakkað.

Musk birti myndband af aðstæðum í hellinum á Instagram í morgun og má sjá það hér að neðan.

Í frétt Guardian segir að Narongsak Osatanakorn, sem fer fyrir björgunaraðgerðunum, segi kafbátinn ekki henta við þær aðstæður sem eru í hellunum. „Þó að tækni hans sé góð hentar hún ekki við þessar aðstæður,“ sagði hann við blaðamenn.

Musk sagði frá því á Twitter að hann hefði komið með kafbátinn á vettvang björgunaraðgerðanna og skilið hann þar eftir. Hann segir að kafbáturinn kallist Villigöltur í höfuðið á fótboltaliðinu sem drengirnir tilheyra.

Kafarar eru nú farnir inn í hellinn að sækja þá fjóra drengi og fótboltaþjálfarann sem þar eru eftir. Aðgerðir gærdagsins, þar sem fjórum drengjum var bjargað, gengu hratt fyrir sig, en í dag gætu þær tekið lengri tíma þar sem meira vatn hefur flætt inn og sterkir straumar eru í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert