Leggja „latteskatt“ á einnota bolla

Hálfri milljón einnota kaffibolla er fleygt á degi hverjum í …
Hálfri milljón einnota kaffibolla er fleygt á degi hverjum í Bretlandi. AFP

Starbucks ætlar að verða fyrsta kaffihúsakeðja Bretlands til þess að taka upp það sem þeir kalla „latteskatt“ (e. latte levy) á alla einnota bolla á kaffihúsum sínum. Hver einnota bolli mun kosta fimm breska aura, sem jafngildir um 7 íslenskum krónum, og er þetta tilraun kaffirisans til þess að sporna við ofnotkun á bollunum.

Guardian greinir frá því að verkefnið hafi verið til tilraunar í London í þrjá mánuði, en skatturinn verður tekinn upp á öllum 950 kaffihúsum keðjunnar í Bretlandi þann 26. júlí. Mbl.is sagði frá því fyrr í dag að Starbucks ætlaði að hætta notkun plaströra á heimsvísu fyrir árið 2020. Ljóst er að stjórnendur keðjunnar ætla ekki að láta sitt eftir liggja í náttúruverndarmálum.

Með skattinum reynir Starbucks að fá viðskiptavini til þess að nota heldur fjölnota mál en einnota, en þeir sem nota fjölnota mál á kaffihúsum keðjunnar fá nú þegar 25 aura afslátt af hverjum drykk. Þar að auki eru þeir sem drekka á staðnum hvattir til þess að nota keramikbolla keðjunnar.

Á meðan á tilraunatímabili „latteskattsins“ stóð jókst notkun viðskiptavina á fjölnota kaffimálum um 126% í London og vonast forstjóri Starbucks í Evrópu, Afríku og Miðausturlöndum, Martin Brok, að þetta verði til vitundarvakningar um einnota plast, rétt eins og fólk sé orðið meðvitaðra um notkun plastpoka.

Erfitt er að endurvinna einnota kaffimál, því þó þau séu að mestu úr pappa eru þau húðuð með plastefninu pólýetýleni sem erfitt er að fjarlægja. Því er aðeins einn af hverjum 400 bollum endurunninn, en hálfri milljón einnota bolla er fleygt á degi hverjum í Bretlandi.

Aðrar breskar kaffihúsakeðjur á borð við Costa og Pret a Manger bjóða afslætti fyrir þá sem versla í fjölnota kaffimál rétt eins og Starbucks, en keðjan er sú fyrsta til að rukka aukalega fyrir einnota bolla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert