May ekki á útleið

Theresa May.
Theresa May. AFP

Forsætisráðherra Bretlands,Theresa May, fundaði með ríkisstjórn landsins í morgun en þetta er fyrsti ríkisstjórnarfundurinn frá því tveir ráðherrar yfirgáfu ríkisstjórnina vegna þess hvernig staðið er að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

David Davis, sem fór með máli Brexit og Boris Johnson utanríkisráðherra sögðu af sér á sunnudagskvöldið og í gær vegna tilslökunar stjórnvalda í viðræðum um útgöngu úr ESB.

Eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun skrifaði May á Twitter að hún sjái fram á annasama viku en hún biður flokk sinn, Íhaldsflokkinn, að standa einhuga saman ef hann ætlar ekki láta frá sér stjórnartaumana og færa þá í hendur leiðtoga Verkmannaflokksins, Jeremy Corbyn.

Bretland gengur út úr ESB 29. mars 2019 en ekki hefur náðst samkomulag um hvernig staðið verður að milliríkjaviðskiptum milli Bretlands og ríkja ESB. Samkvæmt samkomulagi sem gert var á föstudag munu reglur ESB um frjálst flæði varnings að gilda áfram í Bretlandi. Davis sagði af sér þar sem hann taldi að Bretar hefðu gefið of mikið eftir í viðræðunum við  ESB og Johnson segir hugmyndina um Brexit vera komna að fótum fram. 

Fljótlega eftir að Johnson tilkynnti um afsögn sína var Jeremy Hunt, sem ólíkt Johnson, var andsnúinn Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016, skipaður í hans stað.

Harðir stuðningsmenn Brexit í Íhaldsflokknum eru afar ósáttir við hvernig hún hefur tekið á málunum og telja að ESB hafi vinninginn í þeim viðræðum - eða eins og Johnson sagði í gær:  „Draumurinn um Brexit er að deyja.“ 

Hún nýtur aftur á móti stuðnings þeirra hófsömu í flokknum og ekki hafa komið upp neinar opinberar tilraunir til þess að hrekja hana frá völdum. Aftur á móti sjá ýmsir flokksmenn Johnson fyrir sér sem framtíðarleiðtoga flokksins eftir að Bretland fer úr ESB.

Viðræðum um viðskipti ESB og Bretlands verður framhaldið í október og virðist sem flestir telji að Íhaldsflokkurinn standi sameinaður fram yfir þær viðræður. 

Ef vantrausttillaga verður borin upp á þingi er talið fullvíst að May standist hana þrátt fyrir að 48 þingmenn muni örugglega styðja tillöguna. Til þess að hafa betur þarf 159 atkvæði og það er sennilega of há tala fyrir þá sem vilja losna við May úr embætti. Hún ætlar heldur ekki að gefa eftir og segist ætla að berjast til síðasta blóðdropa til að koma í veg fyrir að vera þvinguð úr embætti. 

Jacob Rees-Mogg þingmaður Íhaldsflokksins, hefur barist fyrir Brexit með kjafti og klóm og hann segir að allt að 100 þingmenn Íhaldsflokksins muni greiða atkvæði gegn Brexit samningi May og því ljóst að ekki er útséð um framhald samningsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina