Synjað um að koma til hafnar

AFP

Flutningaskipi sem siglir undir ítölskum fána var neitað að koma til hafnar á Ítalíu vegna þess að áhöfn skipsins hafði bjargað 66 flóttamönnum sem voru á reki fyrir utan strönd Líbýu.

Skipið, Vos Thalassa, er birgðaskip sem þjónustar olíuborpalla á Miðjarðarhafi. Eftir að hafa verið snúið frá ítölskum höfnum setti áhöfnin flóttafólkið í hendur ítölsku strandgæslunnar.

Frá því ný ríkisstjórn tók við völdum á Ítalíu hefur björgunarskipum hjálparsamtaka verið meinað að koma að landi á Ítalíu með flóttafólk. Háttsettir embættismenn hafa sakað mannúðarsamtök um að reka leigubílaþjónustu fyrir hælisleitendur og með þessu ýti þau undir hættuna á að fólk lendi í klónum á mansalshringjum. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem skipi sem siglir undir ítölskum fána er synjað um að koma til hafnar vegna stefnu eigin ríkis í málefnum flóttafólks.

Samkvæmt alþjóðlegum hafréttarlögum verða skip að veita neyðaraðstoð sé þess óskað en ítölsk yfirvöld telja að áhöfn Vos Thalassa hafi ekki þurft að grípa inn í og bjarga flóttafólkinu þar sem líbýska strandgæslan var á leiðinni. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert