Dómari tók kröfu Alvogen til greina

Höfuðstöðvar Alvogen eru í Vatnsmýri.
Höfuðstöðvar Alvogen eru í Vatnsmýri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aftöku fangans Scott Dozier í Nevada-ríki í Bandaríkjunum hefur verið frestað, eftir að dómari í ríkinu tók kröfu lyfjafyrirtækisins Alvogen til greina, en eins og mbl.is hefur greint frá í dag átti að nota lyf sem fyrirtækið framleiðir í banvænan lyfjakokteil við aftökuna.

Lög­fræðing­ar Al­vo­gen sögðu að Nevada-ríki hefði út­vegað sér deyfilyfið midazolam, sem er fram­leidd af fyrirtækinu, með ólög­mæt­um hætti og á fölsk­um for­send­um og fóru fram á að bann yrði lagt við notkun þess í þessum tilgangi.

Forsvarsmenn fyrirtækisins heyrðu fyrst af því að nota ætti lyfið við aftökuna í fjölmiðlum.

Las Vegas Review Journal greinir frá því að lögfræðingur Alvogen, Todd Bice, hafi sagt dómaranum Elizabeth Gonzales fyrir rétti fyrr i dag að fyrirtækið framleiddi lyf til þess að varðveita líf fólks og að málið snúist ekki um það hvort dauðarefsing eigi rétt á sér og þá hvenær, heldur væri um viðskiptadeilu að ræða.

Lögmaður Nevada-ríkis, Jordan Smith, mótmælti því að ríkið hefði nálgast deyfilyfið undir fölskum forsendum og sagði málið snúast skaðaminnkun fyrir Alvogen, sem vildi ekki líta illa í augum almennings með því að leyfa notkun deyfilyfsins við aftökur.

Hann lagði einnig áherslu á að ekki ætti að fresta aftökunni, þar sem fjölskylda fórnarlambs Dozier hefði beðið þess lengi að Nevada-ríki tæki fangann af lífi. Einnig sagði hann að dómarinn ætti að taka tillit til þess að fanginn vildi deyja og væri búinn að kveðja fjölskyldu sína.

Dómarinn tók hins vegar, sem áður segir, undir með málstað Alvogen og aftökunni hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Höfuðstöðvar Al­vo­gen eru á Íslandi, en fyr­ir­tækið er alþjóðlegt lyfja­fyr­ir­tæki með starf­semi í 35 lönd­um. Fyr­ir­tækið sér­hæf­ir sig í þróun og fram­leiðslu sam­heita­lyfja, lausa­sölu­lyfja og líf­tækni­lyfja. Forstjóri fyrirtækisins er Róbert Wessman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert