Hóta að sniðganga Taíland

Ættingi syrgir ástvin sem lést í slysinu við Phuket-eyju.
Ættingi syrgir ástvin sem lést í slysinu við Phuket-eyju. AFP

Á meðan heimurinn fagnar ævintýralegri björgun taílensku fótboltastrákanna tólf og þjálfara þeirra úr Tham Luang hellakerfinu á síðustu dögum, hefur reiði og pirringur í garð taílenskra stjórnvalda aukist gríðarlega á síðustu dögum í Kína eftir að skemmtibáturinn Phoenix sökk við strendur Phuket-eyjar. Alls hefur verið staðfest að 44 kínverskir ferðamenn um borð í bátnum hafi látist í slysinu.

Slysið átti sér stað í síðustu viku þegar tveimur bátum hvolfdi í miklu óveðri við strendur eyjunnar. Alls voru um 120 kínverskir ferðamenn um borð í bátunum tveimur. Viðbrögð taílenskra stjórnvalda við slysinu hafa valdið mikilli reiði í Kína en gríðarlega langan tíma tók að bregðast við og leita þeirra sem saknað var. Síðast í gær fundust lík fjögurra farþega en sex dagar eru liðnir síðan slysið átti sér stað.

Björgunaraðgerðir eru enn í fullum gangi.
Björgunaraðgerðir eru enn í fullum gangi. AFP

Þá hafa ummæli staðgengils forsætisráðherra Taílands, Prawit Wongsuwan, um slysið sérstaklega vakið athygli í Kína en hann sagði að einungis væri hægt að kenna kínverskum ferðaskrifstofum um slysið. „Í slysinu voru Kínverjar að skaða Kínverja,“ sagði hann við blaðamenn á svæðinu.

Kínverskir fjölmiðlar hafa brugðist harkalega við ummælum Wongsuwan og kallað eftir skjótri afsökunarbeiðni. Á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo kemur fram að vitni af slysinu fullyrði að engin viðvörun taílenskra stjórnvalda hafi verið gefin út vegna veðursins og að enn fremur hafi áhöfn bátarins, sem var taílensk, yfirgefið bátinn um leið og vatn tók að flæða um borð. Þá segjast fjölskyldur þeirra sem létust hafa mætt erfiðleikum og kaldranalegu viðhorfi þegar þær leituðust eftir því að bera kennsl á látna ástvini.

Stærstur hluti þeirra ferðamanna sem heimsækja Taíland eru kínverskir og næstum því tíu milljónir kínverskra ferðamanna heimsóttu landið í fyrra. Í kjölfar slyssins hafa komið fram háværar raddir innan Kína sem hvetja ferðamenn að sniðganga taílenska ferðaþjónustu.

Björgunaraðilar með lík farþega.
Björgunaraðilar með lík farþega. AFP

Herstjórn landsins hefur brugðist við þeirri ógn með því að gefa út afsökunarbeiðni vegna ummæla Wongsuwan. Gagnrýni kínverskra stjórnvalda hefur í kjölfarið orðið mildari. „Taíland hefur lofað að leitinni verður ekki hætt fyrr en allir hafa verið fundnir,“ sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins samkvæmt CNN.

Samt sem áður virðast margir notendur Weibo vera á þeirri skoðun að kínverskir ferðamenn eigi að sniðganga Taíland á ferðalögum sínum. „Ég er ánægður með að taílensku fótboltastrákunum var bjargað, en ég mun aldrei aftur heimsækja þetta land!’’ sagði einn notandi.

mbl.is
dönsk antik innskotsborð sími 869-2798
dönsk antik innskotsborðinnlögð með rósamunstri í toppástandi á 35,000 kr sími...
Kolaportið sjávarmegin-plötuportið.
Mikið úrval af ýmsum gömlum plötum Low, Pinups, Diamond Dogs, Aladin Sane, o.f...
Sendibílaþjónustan Skutla. Sími 867-1234
Tökum að okkur allrahanda sendibílaþjónustu á sanngjörnu verði. Sjá nánar á www....
Vetur í Biskupstungum...
Eigum laust sumarhús í mars/april í nokkra daga. Hlý og kósí hús með heitum pot...