Rússland sagt ógna öryggi og stöðugleika

Á fundi sínum samþykktu leiðtogar NATO-ríkjanna yfirlýsingu þar sem fjölbreyttum ...
Á fundi sínum samþykktu leiðtogar NATO-ríkjanna yfirlýsingu þar sem fjölbreyttum ógnum og ákorunum bandalagsins var lýst. Ljósmynd/NATO

„Við stöndum frammi fyrir hættulegu, ófyrirsjáanlegu og síbreytilegu öryggisumhverfi með viðvarandi áskorunum og ógnum frá öllum áttum. Ógnir frá ríkjum og samtökum, hervaldi, hryðjuverkum og netárásum,“ er meðal þess sem kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu 29 aðildarríkja NATO sem samþykkt var á leiðtogafundi bandalagsins í Brussel í dag.

Óstöðugleiki í Miðausturlöndum og Norður-Afríku er sagður ýta undir hryðjuverkaógn og mikla fólksflutninga, sem hafi haft í för með sér mansal. Viðvarandi vandamál Sýrlands hafa bein áhrif á stöðugleika svæðisins ásamt öryggi aðildarríkja NATO að mati leiðtogana.

Falsfréttir, dreifing rangra upplýsinga og netárásir eru sögð viðvarandi viðfangsefni ásamt útbreiðslu gjöreyðingavopna og eldflaugatækni.

„Á grundvelli þessa þátta er samstaða okkar sterkari en nokkru sinni fyrr, við munum beita öllum ráðum sem þarf til þess að tryggja sameiginlegt öryggi okkar,“ segir yfirlýsing leiðtoganna.

Rússland áberandi

Rússland er fyrirferðarmikið í yfirlýsingunni sem er í 79 liðum. Þá eru aðgerðir Rússa sagðar ögrandi, ekki síst vegna valdbeitingar og hótanir um valdbeitingu til þess að ná fram pólitískum markmiðum. Aðildarríkin segja Rússland reyna að setja stein í götu Atlantshafsbandalagsins og grafa undan öryggi og alþjóðaskipan á grundvelli laga.

NATO-ríkin segjast vilja halda áfram samræðum við Rússa en standa við fyrri ákvörðun sína um að hætta öllu samstarfi við ríkið á sviði öryggis- og varnarmála. Tekið er fram að NATO sækist ekki eftir átökum og að bandalagið ógni Rússlandi með engum hætti.

Mótmæla beitingu eiturvopna

Leiðtogar NATO-ríkjanna vísa til fjölmargra dæma í yfirlýsingu sinni til þess að sýna með hvaða hætti bandalagið telur aðgerðir Rússa í nágrenni landamæra NATO-ríkja ögrandi. Aukin framlög til framleiðslu og þróunar kjarnorkuvopna er meðal þessara atriða, jafnframt er því mótmælt að kjarnorkueldflaugum hafi verið komið fyrir í Kaliningrad og að brotið hafi verið gegn alþjóðasamþykktum með því að fljúga inn í loftrými annarra ríkja.

Rússland er sagt neita að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar vegna samninga um vopnaeftirlit og afvopnun.

Rússland er sagt beita „blönduðum“ aðgerðum sem ógni öryggi og stöðugleika, þar með talið dreifingu falskra upplýsinga, netárásum og afskiptum af kosningum innan aðildarríkja NATO.

Leiðtogarnir fordæma eiturárásina í Salisbury í Bretlandi og benda á staðfestingu OPCW [alþjóðasamtök gegn efnavopnum] þess efnis að rússneskt taugaeitur hafi verið notað. Aðildarríkin segjast standa í sameiningu með Bretum í málinu.

Innlimun Krímskaga ólögleg

NATO-ríkin ítreka mikilvægt þess að staðið sé vörð um alþjóðlega viðurkennd landamæri Úkraínu, Georgíu og Moldóvu. Þá er skorað á Rússland að fjarlægja herlið sitt frá þessum ríkjum, sem eru þar án samþykki ríkjanna.

Innlimun Krímskagans er fordæmd og segjast ríkin ekki viðurkenna þennan ólöglega gjörning. Krafist er að kerfislæg brot gegn krímverskum Töturum verði stöðvuð og að staðið verði við skuldbindingar sem lagðar eru til grundvallar Minsk-samkomulagsins, jafnframt að alþjóðlegum eftirlitsaðilum verði gert kleift að framkvæma mikilvægt starf sitt.

Nýjar höfuðstöðvar NATÓ í Brussel.
Nýjar höfuðstöðvar NATÓ í Brussel. Ljósmynd/NATÓ
mbl.is

Bloggað um fréttina

Þreyttur á geymslu- ólykt í ferðavagni.
Eyðir flestri ólykt. Ertu búinn að sækja bílinn úr vetrargeymslu, er ólykt í bíl...
Línuskautar
Til sölu velmeðfarnir línuskautar. Tegund: HYPNO - PATHMAKER - THUNDER Stærð: ...
Tæki fyrir fjórhjólið
Fjölmörg tæki í boði fyrir fjórhjólið www.hardskafi.is...
Málningar- og viðhaldsvinna
Getum bætt við okkur inni- og útiverkefnum. Vönduð vinnubrögð og góð umgengni. T...