Þvílíkur fögnuður og gleði

Þjóðsöngur Frakka, La Marseillaise, ómar, bílflautur þeyttar, flugeldar sprengdir og gleðióp heyrast víða: Við erum komin í úrslit. Þetta er lýsing á París í gærkvöldi eftir að ljóst var að franska karlalandsliðið var komið í úrslit HM í þriðja skiptið eftir 1-0 sigur á Belgum.

Talið er að um 20 þúsund manns hafi fylgst með leiknum á risaskjáum á torginu fyrir framan skrifstofu borgarstjóra í París, Hôtel de Ville, sem margir Íslendingar muna eftir frá Evrópukeppninni fyrir tveimur árum. Hvert einasta pláss var troðið og klifraði fólk jafnvel upp í tré til þess að sjá betur. 

Þegar Samuel Umtiti skoraði á 51. mínútu leiksins fór bylgja af stað, hafsjór frönsku fánalitanna liðaðist um stræti og götur, Parísarbúar voru byrjaðir að fagna. 

„Vive la France, vive la Republique,“ mátti heyra kallað og þegar leiknum lauk með sigri Frakka varð allt vitlaust. 

„Ég var 18 ára árið 1998 og það var eitt besta kvöld lífs míns. Við endurtökum þetta á sunnudaginn,“ segir Sebastien sem var einn þeirra fjölmörgu sem fögnuðu í gærkvöldi. 

Af svölum mátti sjá fjölskyldur saman, veifandi franska fánanum, nánast öll börn eru í landsliðstreyjum og rue de Rivoli iðaði í bókstaflegri merkingu. Rivoli sem venjulega er ein helsta umferðaræð miðborgar Parísar var breytt í göngugötu fyrir leikinn og var maður við mann allt frá upphafi til enda. Ekkert ósvipað því sem var fyrir 20 árum þegar Frakkar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu karla.

Borgarstjórinn í París, Anne Hildigo, var ein þeirra sem fagnaði á götum Parísar í gær líkt og fjölmargir borgarbúar.

AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert