Voru fluttir sofandi út úr hellinum

Öryggisvörður við Chiang Rai sjúkrahúsið þar sem drengirnir og þjálfari ...
Öryggisvörður við Chiang Rai sjúkrahúsið þar sem drengirnir og þjálfari þeirra dvelja. AFP

Drengirnir voru sofandi á börum þegar þeir voru fluttir út úr hellinum, segir sérsveitarmaður í taílenska sjóhernum. Hann var síðasti kafarinn út úr hellinum ásamt áströlskum lækni sem gætti drengjanna. 

„Einhverjir voru sofandi, einhverjir hreyfðu fingurna eins og þeir væru óstyrkir en þeir önduðu allir,“ segir Chaiyananta Peeranarong þegar hann veitti fyrstu nákvæmu upplýsingarnar um björgun drengjanna tólf og þjálfara þeirra.

Fjölskyldur drengjanna bíða enn eftir því að fá að hitta þá en þeir eru allir þrettán á sjúkrahúsi. Síðustu drengirnir og þjálfari þeirra komust út úr hellinum í gær við mikinn fögnuð heimsbyggðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Dr. Tongchai Lertvirairatanapong eru drengirnir við góða heilsu þrátt fyrir að þeir hafi misst um 2 kíló að meðaltali þennan tíma sem þeir voru lokaðir inni í hellinum.

Hann segir að það sé ekki síst þjálfara þeirra, munkinum fyrrverandi Ekkapool Ake Chantawong, að þakka.  „Ég verð að hrósa þjálfaranum fyrir hvað hann hugsaði vel um þá og gætti þeirra vel.“

Hann segir að drengirnir hafi ekki fengið neinn mat þessa níu daga sem liðu áður en þeir fundust og drukkið skítugt vatn í hellinum sem hefur væntanlega bjargað lífi þeirra. 

Drengirnir sem losnuðu fyrst út úr hellinum, á sunnudag, hafa fengið að sjá fjölskyldur sínar í gegnum gler og tala við þær í síma. Þeir munu fljótlega fá að hitta þær í eigin persónu en til þess þurfa bæði þeir og ættingjar þeirra að vera í sérstökum hlífðarfatnaði. Búist er við að þeir verði í að minnsta kosti viku á sjúkrahúsinu á meðan ónæmiskerfi þeirra jafnar sig.

Líkt og komið hefur fram á mbl.is hafa knattspyrnumenn og lið fylgst grannt með björgun þeirra en þeir fóru inn í hellinn að lokinni knattspyrnuæfingu laugardaginn 23. júní. Ljóst er að þeir geta ekki mætt á úrslitaleikinn á HM á sunnudag líkt og FIFA bauð þeim en þeir hafa þegar fengið boð um að fara á leikinni í ensku meistaradeildinni.

Nú hefur forseti spænska knattspyrnusambandsins, La Liga, Javier Tebas, boðið þeim ásamt þjálfara á leiki í spænsku deildinni. Þeim sé boðið á eins marga leiki og þeir hafa áhuga á að sjá en einn drengjanna var einmitt í Real Madrid treyju þegar þeim var bjargað. 

mbl.is
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
Leiga, herb. hús, við Gullna hringinn..
Studio herb. með sérbaði og eldunaraðstöðu, hlýleg og kósí, 5 mínútur frá Gey...
Fágætar vínilplötur í Kolaportinu!!
Mikið úrval af fágætum vínilplötum í Kolaportinu við gluggavegg miðjan sjávarmeg...