Helmingur ungra Dana stenst ekki kröfur

Danskir hermenn á NATO-æfingu árið 2014. Aldrei hafa fleiri ungir ...
Danskir hermenn á NATO-æfingu árið 2014. Aldrei hafa fleiri ungir Danir verið metnir óhæfir til herþjónustu. Ljósmynd/Capt. John Farmer

Formaður stéttarfélags danskra hermanna (d. Hærens Konstabel- og Korporalforening), hefur lýst yfir áhyggjum af almennu heilsufari ungra Dana, sem margir eru af heilsufarsástæðum taldir óhæfir til þess að gegna herþjónustu.

Danska blaðið Berlingske greinir frá því í dag að hlutfall þeirra sem eru metnir ófærir um að gegna herþjónustu hafi aldrei verið hærra, en nærri annar hver ungur Dani stenst ekki heilsufarsmat hersins.

Allir danskir karlmenn sem náð hafa 18 ára aldri og eru skráðir til heimilis í landinu þurfa að mæta til danska hersins á svokölluðum herdegi (d. forsvarets dag) og láta meta hvort þeir séu líkamlega hæfir til herþjónustu.

Hluti þeirra sem standast matið og eru álitnir líkamlega færir ganga svo til liðs við herinn í fjóra til tólf mánuði og hljóta grunnþjálfun, en dregið er um það hlutskipti.

Árið 2017 voru um 48% þeirra sem mættu á herdaginn taldir allskostar óhæfir til þess að ganga til liðs við hann, en þetta hlutfall hefur farið hækkandi undanfarin ár. Árið 1995 var það lægra en 30%.

Berlingske byggir umfjöllun sína á nýrri skýrslu frá mannauðsstofnun danska hersins. Í skýrslunni kemur fram að 22% þeirra sem voru metnir óhæfir til að ganga til liðs við herinn hafi verið það sökum andlegra vandamála á borð við ADHD, kvíða eða þunglyndis. Í skýrslunni segir að fleiri séu með slíkar greiningar í dag en áður fyrr.

Ættu að hafa áhyggjur af hrakandi heilsu unga fólksins

„Herinn spjarar sig, en ég tel þessar tölur vera áhyggjuefni,“ segir Flemming Vinther, formaður stéttarfélags danskra hermanna í samtali við dönsku fréttaveituna Ritzau, inntur eftir viðbrögðum vegna umfjöllunar Berlingske.

Hann segir að ávallt sé nóg af einstaklingum sem hafi áhuga á að gegna herþjónustu og að það sé ekki orðið sérstakt vandamál að ekki fáist nægilega margir ungir karlmenn til að ganga til liðs við herinn, en þess ber einnig að geta að nokkur fjöldi ungra kvenna í Danmörku býður sig fram til að gegna herþjónustu ár hvert.

„Þetta segir mér fyrst og fremst að við sem samfélag ættum að hafa áhyggjur af hrakandi heilsu á meðal unga fólksins,“ segir Vinther, sem telur að skilyrðin fyrir inngöngu í herinn séu hvorki of ströng né ósanngjörn.

Umfjöllun DR um málið

Umfjöllun The Local um málið

mbl.is