Trump heldur til Bretlands

Fastlega er gert ráð fyrir því að leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins verði friðsælli í dag en í gær þar sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er á leið til Bretlands þar sem hann hittir meðal annars Theresu May forsætisráðherra að máli.

Helstu umræðuefni fundar NATO í dag snúa að Afganistan og Úkraínu en Trump lagði til í gær að framlög ríkja bandalagsins til varnarmála yrðu aukin enn frekar, úr 2% af vergri landsframleiðslu eins og stefnt er að, í 4%. Hann lét ekki þar við sitja heldur réðst harkalega á Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þar sem hann sakaði Þjóðverja um að vera undir hælnum á Rússum vegna kaupa á orku frá þeim síðarnefndu. Líkt og Trump benti á í ræðu sinni verja þýsk stjórnvöld 1,24% af vergri landsframleiðslu til varnarmála á meðan Bandaríkin setja 3,5% í varnarmál. 

Merkel svaraði Trump fullum hálsi við komuna til Brussel í gær en hún var ekki viðstödd þegar hann flutti morgunverðarræðu sína. Þau áttu síðar um daginn tveggja manna tal og sagði Trump eftir fundinn að vinátta þeirra væri mikil og góð. Eitthvað lesa blaðamenn annað í líkamstjáningu þeirra eftir fundinn og segja fátt benda til góðrar vináttu.

Trump kemur til London um hádegi en mótmæli eru þegar hafin í höfuðborginni. Sumarleyfum lögreglumanna hefur verið aflýst og þeim sem þegar voru komnir í frí gert að mæta aftur til starfa. Trump ætlar sér að dvelja í Bretlandi í fjóra daga eða þangað til á mánudag þegar hann fer til Helsinki á fund Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Trump er á því að það verði auðveldasti hluti Evrópuheimsóknarinnar, að minnsta kosti svona fyrir fram. Um fyrsta fund þeirra er að ræða frá því rannsókn á mögulegum samskiptum kosningaskrifstofu Trump og stjórnvalda í Rússlandi hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert