Vildi láta drepa tvo í viðbót

AFP

Norska lögreglan handtók á þriðjudag 63 ára gamlan Óslóarbúa sem er sakaður um að hafa fyrirskipað morð og reynt að fá tvö morð til viðbótar framin í Pakistan. Hann verður væntanlega úrskurðaður í gæsluvarðhald síðar í dag.

Á blaðamannafundi norsku lögreglunnar í morgun kom fram að konan sem hann lét drepa var eiginkona hans í Pakistan. Konan var fertug að aldri og var önnur af tveimur eiginkonum hans. Þau áttu tvö börn saman en ekki kom fram á blaðamannafundinum hvort það voru börnin sem hann ætlaði að láta drepa.

Maðurinn hefur verið búsettur í meira en 40 ár í Noregi og á þar eiginkonu og börn. Hann gekk í hjónaband með hinni konunni árið 2006 í Pakistan en sú kona kom aldrei til Noregs, segir Anne Alræk Solem, sem stýrir rannsókninni.

Konan var myrt 31. maí í fyrra og var hún skotin til bana klukkan 7:30 að morgni er hún var á leið til vinnu. Norska lögreglan hefur unnið að rannsókn málsins í eitt ár.

Ástæðan fyrir morðinu er helsta viðfangsefni rannsóknarinnar, segir Sturla Henriksbø, saksóknari lögreglunnar í Ósló á fundi með blaðamönnum. Lögreglan telur að maðurinn hafi einnig fyrirskipað dráp á tveimur öðrum manneskjum í Pakistan en morðin voru ekki framin segir Solem. Ekki er annað upplýst um hverjar þær eru annað en að þær eru nákomnar manninum.

Morðið var framið í úthverfi Lahore, Shahdara, og var morðinginn yfirbugaður af vitnum á staðnum. Hann segir að beiðnin um morðið hafi komið frá Noregi og honum hafi verið heitið 100 þúsund rúpíum fyrir en aðeins fengið 11 þúsund rúpíur greiddar.

Frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert