Almennir borgarar í felum féllu

Reykur stígur upp í loftið frá byggingu í borginni Deir …
Reykur stígur upp í loftið frá byggingu í borginni Deir Ezzor. AFP

28 almennir borgarar féllu í loftárásum sem gerð var á síðasta vígi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Deir Ezzor í austurhluta Sýrlands. 

Árásin var gerð seint í gær og varð hópur borgara, sem safnast hafði saman í verksmiðju í nágrenni þorpsins Al-Soussa, fyrir henni að sögn mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights sem fylgst hafa með gangi stríðsins frá upphafi.

Íraskar herflugvélar hafa undanfarið gert loftárásir á þessu svæði. Vélar bandamanna undir forystu Bandaríkjamanna hafa á svipuðum slóðum aðstoðað Kúrda í baráttu sinni gegn vígamönnunum. 

Sýrlenski ríkisfjölmiðillinn Sana greindi frá loftárásinni í gær og sakaði bandamenn um að bera ábyrgð á henni. Því hafa bandalagsríkin ekki enn svarað.

Vígamenn Ríkis íslams æddu um Sýrland og Írak árið 2014 og tilkynntu um stofnun kalífadæmis þvert á landamæri ríkjanna á þeim landssvæðum sem þeir náðu undir sína stjórn.

Í hernaðaraðgerðum síðustu missera hafa þeir misst nær öll sín yfirráð en þar má þá enn finna smá svæði þar sem þeir halda enn um valdataumana, m.a. Deir Ezzor í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert