Heimsókn Trump er lokið

Forsetahjónin ásamt Elísabetu Englandsdrottningu.
Forsetahjónin ásamt Elísabetu Englandsdrottningu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að fríverslunarsamningur Bretlands og Bandaríkjanna sé „algerlega mögulegur“, en tveggja daga heimsókn hans í London lauk nú í kvöld. Fyrr í dag lýsti Trump því yfir að viðtal við hann í The Sun, þar sem hann sagði útgönguleið Bretlands úr Evrópusambandinu gera viðskiptasamning þeirra á milli ómögulegan, væri „falsfrétt“. Trump segist sannfærður um að hægt verði að komast að samkomulagi um viðskiptasamning á milli landanna tveggja eftir heimsóknina.

Eftir viðræður hans við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sagði Trump að samband landanna tveggja væri afar sérstakt og May sagði þau hafa rætt metnaðarfullan viðskiptasamning sín á milli. Trump hrósaði May í hástert og sagði hana ótrúlega konu, að hún væri hörð í horn að taka í samningaviðræðum og að hún stæði sig gríðarlega vel í starfi sínu.

Heimsókn Trump hefur síður en svo verið vel tekið af Bretum, en nú síðdegis sendu þeir á flug gríðarstóra blöðru í líki Trump sem smábarns. Mótmælendur höfðu fengið leyfi fyrir blöðrunni hjá borgarstjóra London.

Smábarnið Trump blásið upp.
Smábarnið Trump blásið upp. AFP

Síðasta heimsókn Trump var svo í Windsor-kastala þar sem hann og forsetafrúin, Melania Trump, hittu Elísabetu Englandsdrottningu. Fundur þeirra stóð yfir í um klukkustund. Hér að neðan má sjá myndskeið BBC af því þegar hjónin hittu drottninguna.

Tveggja daga heimsókn Trump, sem er fyrsta opinbera heimsókn hans til Bretlands eftir að hann tók við forsetaembætti, var aðeins stutt stopp á milli þess sem hann sat fund Atlantshafsbandalagsins í Brussel, og þjarmaði harkalega að þýskum stjórnvöldum, og fundar hans með Vladimir Pútín Rússlandsforseta sem fara mun fram í Helsinki í Finnlandi á mánudag.

Ákærur á hendur tólf rússneskum leyniþjónustumönnum fyrir að brjótast inn í tölvukerfi Demókrata í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum voru taldar stefna áætlunum um fund forsetanna í hættu, en forsvarsmenn í Hvíta húsinu hafa staðfest að fundurinn sé enn á dagskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert