Lést eftir öryggisæfingu í skólanum

Lögregluyfirvöld á Indlandi rannsaka nú málið.
Lögregluyfirvöld á Indlandi rannsaka nú málið. AFP

Indverska lögreglan hefur handtekið leiðbeinanda í háskóla í Tamil Nadu-fylki í suðurhluta Indlands eftir að nítján ára nemandi lést á öryggisæfingu.

Lögreglan segir að nemandinn, N Logeshwari, hafi látist eftir að hún var þvinguð til að stökkva fram af byggingu í öryggisnet sem samnemendur hennar héldu uppi fyrir neðan hana. Nemendurnir segja að leiðbeinandinn hafi í raun ýtt henni þar sem að hún vildi ekki stökkva.

Hún slasaðist alvarlega þegar höfuð hennar skall svo í þakrennu á fyrstu hæð byggingarinnar. Lögreglan hefur einnig hafið rannsókn á háskólanum eftir því sem fram kemur á vef BBC. „Skólinn sótti ekki um leyfi fyrir slíka þjálfun. Þetta fer á skjön við lögin. Skólar og háskólar verða að fá viðeigandi leyfi frá yfirvöldum fyrir þjálfun sem þessa. Lögreglan rannsakar nú málið og leiðbeinandinn hefur verið handtekinn,“ sagði talsmaður yfirvalda á svæðinu við blaðamann BBC.

Stúlkunni var flýtt á spítala strax eftir fallið en var úrskurðuð látin við komuna þangað. Háskólinn hefur enn ekkert tjáð sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert