Thorvald Stoltenberg látinn

Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, lést í dag, 87 ára að aldri. Stoltenberg hafði glímt við skammvinn veikindi og lést í faðmi fjölskyldunnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá fjölskyldunni.

Hann var faðir Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs 2000-01 og 2005-13 og núverandi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.

Hann starfaði sem ráðherra í þremur ríkisstjórnum Verkamannaflokksins í Noregi, sem varnarmálaráðherra 1979-81 og utanríkisráðherra 1987-89 og 1990-93. Stoltenberg gegndi einnig starfi diplómata og samningamanns hjá Sameinuðu þjóðunum og þá var hann einnig forseti norska Rauða Krossins um tíma. 

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, vottaði aðstandendum Stoltenberg samúð sína á Twitter í kvöld. Segir hún framlag hans til Noregs vera stórt og mikilvægt en hans sé fyrst og fremst minnst sem hlýrrar manneskju. 

Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins í Noregi, minnist Stoltenberg einnig á Twitter. Støre segir að Stoltenberg hafi ávallt sett fólk í fyrsta sæti og hafi aldrei gefist upp. „Heimurinn þarfnast þeirra eiginleika sem Thorvald var gæddur,“ segir Støre um flokksbróður sinn.

Í lengri kveðju á Facebook segir Støre einnig að Stoltenberg hafi sem stjórnmálamaður og diplómati leitast til þess að finna lausnir sem gætu gefið fólki og samfélögum möguleika á að komast aftur af stað eftir kreppur eða átök. „Þess vegna fannst honum svo mikilvægt að sjá alla og láta rödd allra heyrast. Það var aðferð Thorvalds sem diplómata, stjórnmálamanns, samningamanns hjá Sameinuðu þjóðunum og sem forseti [norska] Rauða Krossins,“ skrifar Støre.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert