Tugþúsundir mótmæla Trump

Mótmælendur bera grímur af leiðtogunum tveimur Trump og May í …
Mótmælendur bera grímur af leiðtogunum tveimur Trump og May í háðsskyni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fékk ekki sérlega góðar móttökur frá íbúum Lundúnaborgar, en hann er þar staddur vegna viðræða við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Gríðarstórri „barna Trump“-blöðru var fyrr í dag flogið yfir þinghús Breta en umdeildri heimsókn forsetans er mótmælt víða um Bretland í dag.

Appelsínugul blaðran tók á loft um klukkan hálf tíu á staðartíma í morgun. Maðurinn sem stendur fyrir blöðrunni, Leo Murray, sagði í samtali við CNN að blaðran var til þess gerð að ná til Trump á „tungumáli sem hann skilur, það er persónulegar árásir.“ Þá segir Murray að þótt sumir hafi efasemdir um að gera Bandaríkjaforseta að athlægi, hafi stefna Trump á forsetatíð hans skapað andrúmsloft þar sem „venjulegar diplómatískar venjur eigi ekki lengur við.“

Komu Trump til Bretlands er mótmælt í Lundúnum.
Komu Trump til Bretlands er mótmælt í Lundúnum. AFP

Flug blöðrunnar var samþykkt af borgarstjóra Lundúna, Sadiq Khan, fyrr í mánuðinum. Kalt er á milli Trump og Khan en borgarstjórinn tók opinbera afstöðu gegn komu forsetans til Bretlands.

Mótmælendur komu saman snemma í morgun til þess að fylgjast með blöðrunni hefja flug sitt en heimsókn Trump til Bretlands hefur valdið mikilli reiði í landinu. Bæði á meðal íbúa sem og breskra stjórnmálamanna. Forsetinn hætti við fyrirhugaða ferð sína til Lundúna fyrr á árinu vegna ótta um mótmæli.

Trump-blaðran flýgur yfir Westminister.
Trump-blaðran flýgur yfir Westminister. AFP

Heimsókn Trump hefur því verið vandlega skipulögð þannig að hægt verið að forðast mótmælin en samkvæmt CNN hefur honum þó borist veður af blöðrunni frægu. Á blaðamannafundi í Brussel í gær í kjölfar leiðtogafundar NATO sagðist Trump ekki hafa áhyggjur af mótmælum við komu hans. „Ég held að þeim líki vel við mig í Bretlandi… þess vegna gerðist Brexit.“

Viðræður Trump og May fara fram fyrir utan borgina á sveitasetri May. Fundur forstans við Elísabetu Englandsdrottningu mun einnig fara fram fyrir utan miðborgina, í Windsor-kastala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert