Fær ekki að spila golf í friði

Trump hefur slegið aðeins út fyrir völlinn af þessari ljósmynd …
Trump hefur slegið aðeins út fyrir völlinn af þessari ljósmynd að sjá. AFP

Donald Trump er ekki alfarinn frá Bretlandi þó að formlegri heimsókn forsetans hafi lokið í gærkvöldi. Forsetinn nýtir helgarfrí sitt í að spila golf í Skotlandi, en í Edinborg hafa þúsundir streymt á götur út til þess að mótmæla veru forsetans í landinu. BBC greinir frá.

Trump hélt til Skotlands eftir heimsókn sína í Windsor-kastala seinni partinn í gær þar sem hann fundaði með Englandsdrottningu. Hann hefur nú tvo daga til þess að safna kröftum fyrir fund sinn með Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem fram fer í Helsinki í Finnlandi á mánudag. Trump hefur látið þau orð falla að fundur hans með Pútín verði auðveldasti hluti ferðarinnar.

Lögregla og skyttur vakta golfvöllinn

Þar sem Trump spilar golf, á Turnberry-vellinum við Ayrshire-ströndina, vaktar fjöldi lögreglumanna svæðið þar sem fjöldi mótmælenda sem hefur safnast saman, auk þess sem skyttur umkringja völlinn til verndar forsetanum.

Lögreglan hefur staðfest að hún sé með til rannsóknar hvernig svifvængjaflugmanni tókst að fljúga yfir svæðið með skilaboð þar sem Trump var gagnrýndur.

Í Edinborg fóru einnig fram meiri háttar mótmæli þar sem blaðran fræga sem einnig var notuð í London var sett á loft. Ekki fékkst leyfi til að nota blöðruna í nágrenni Turnberry-golfvallarins.

Móðir Trumps er skosk og fjölmargir í fjölskyldu forsetans eyða helginni á hóteli á svæðinu sem Trump keypti árið 2016. Svifvængjaflugmaðurinn flaug yfir svæðið skömmu eftir að forsetinn kom þangað á föstudagskvöld.

Lögregla og leyniskyttur umkringja golfvöllinn.
Lögregla og leyniskyttur umkringja golfvöllinn. AFP

Samtökin Greenpeace stóðu fyrir gjörningnum, en talsmaður þeirra segir að engin hætta hafi stafað af flugmanninum og að þau hefðu gert lögreglu viðvart um 15 mínútum áður en hann lenti við hótelið. „Okkur þótti mikilvægt að forsetinn sæi mótmælanda með berum augum.“

Trump hefur verið hlíft við hvers konar mótmælum gegn honum það sem af er heimsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert