Ráðherra segir af sér vegna smáskilaboða

Andrew Griffiths hefur sagt af sér embætti vegna kynferðislegra smáskilaboða …
Andrew Griffiths hefur sagt af sér embætti vegna kynferðislegra smáskilaboða sem hann sendi tveimur konum. Ljósmynd/Vefsíða breska þingsins

Andrew Griffiths, ráðherra í viðskiptaráðuneyti Bretlands, hefur sagt af sér vegna kynferðislegra smáskilaboða sem hann sendi tveimur konum. Smáskilaboðin verða gerð opinber í Sunday Mirror á morgun, að því er BBC greinir frá.

Griffiths er ráðherra smárra fyrirtækja, en hann var áður yfirmaður starfsmannamála hjá Theresu May forsætisráðherra. Hann hefur verið í ríkisstjórn síðan 2010 og er góðkunningi May.

Í samtali við Sunday Mirror segist hann skammast sín heiftarlega. Hann segir hegðun sína hafa valdið miklu uppnámi hjá eiginkonu hans og fjölskyldu, sem hann eigi allt að þakka, en hann og eiginkona hans eignuðust litla stúlku í apríl á þessu ári.

Þá bað hann forsætisráðherra og ríkisstjórnina afsökunar í yfirlýsingu. Stjórnmálafræðingur BBC, Iain Watson, segir Griffiths hafa „hoppað áður en honum var ýtt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert