Lagðist til sunds eftir manndráp

Meintur árásarmaður greip að lokum til þess örþrifaráðs að leggjast …
Meintur árásarmaður greip að lokum til þess örþrifaráðs að leggjast til sunds en lögregla hafði þá fengið bát að láni hjá almennum borgara og handtók manninn úr bátnum. Mynd úr safni. mbl.is/Atli Steinn

Lögreglunni í Vadsø, nyrst og austast í Finnmerkurfylki, nyrsta fylki Noregs, barst laust fyrir klukkan 22 í gærkvöldi, 20 að íslenskum tíma, tilkynning um að maður hefði verið stunginn í versluninni Coop Byggmix þar í bænum.

Þegar lögregla og sjúkralið mættu á vettvang lá þar 18 ára gamall starfsmaður verslunarinnar í blóði sínu og var úrskurðaður látinn er að var komið. Hinn látni hafði verið starfsmaður í hlutastarfi hjá Coop og verið þar á kvöldvakt við þriðja mann í gærkvöldi.

Vitni greindu lögreglu frá því að þau hefðu séð pilt forða sér á hlaupum út í Store Vadsøya, eyju utan við bæinn sem tengist honum með brú.

Hófst þá eftirför sem stóð í um fjórar klukkustundir og þurfti lögregla að leita til almenns borgara og fá bát að láni hjá honum eins og norska ríkisútvarpið NRK greinir frá. Þá hafði lögreglu tekist að króa meintan árásarmann af á eyjunni en hann sá þá sitt óvænna og lagðist til sunds. „Hann stökk í sjóinn og það endaði með því að við handtókum hann úr bátnum,“ segir Unni Pedersen Stock, lögreglustjóri Varanger-lögregluumdæmisins, við NRK.

„Hugur okkar er hjá aðstandendum“

Árásarmaðurinn meinti reyndist vera 17 ára gamall afganskur hælisleitandi sem fengið hefur tímabundið dvalarleyfi í Noregi á meðan yfirvöld útlendingamála fara með mál hans en hann hefur dvalist í landinu síðan 2015. Hefur hann hvorki sætt ákærum né hlotið dóma í Noregi en lögregla á svæðinu þekkir þó til hans og greindi frá því á blaðamannafundi síðdegis í dag, eins og NRK segir hér frá, að lögregla hafi í tvígang haft afskipti af hælisleitandanum vegna tilkynninga um áreitni hans í garð fólks. Dagblaðið VG greinir enn fremur frá því að hann hafi elt fólk á förnum vegi.

Upplýsingafulltrúi Coop, Harald Kristiansen, staðfestir við NRK að fórnarlambið hafi verið á vakt í búðinni þegar ráðist var á það og þeir hafi verið þrír á staðnum, starfsmennirnir. Jan-Ivar Alsén, forstjóri Coop Finnmark, segir að hinir starfsmennirnir þiggi nú áfallahjálp frá áfallahjálparhópi sveitarfélagsins. „Hugsanir okkar eru hjá aðstandendum hins látna og öðrum sem eiga um sárt að binda eftir atburðinn,“ segir Alsén.

Ekki hefur verið hægt að yfirheyra hinn grunaða vegna andlegs ástands hans, kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í dag, en farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum á morgun, mánudag. Verjandi hans, Vidar Zahl Arntzen, segist hafa átt fund með skjólstæðingi sínum en geti ekkert sagt um afstöðu hans til sakarefnisins þar sem hann sé ekki ástandi til að tjá sig.

Umfjöllun annarra fjölmiðla en þegar hefur verið vísað til:

Frá ABC Nyheter

Frá Nettavisen

Frá Dagbladet

Frá Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert