Litlar væntingar fyrir forsetafundinn

Rússar fagna fundi forsetanna með sérshönnuðum babúskum.
Rússar fagna fundi forsetanna með sérshönnuðum babúskum. AFP

Donald Trump segist litlar væntingar hafa fyrir fund sinn með Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem fer fram í Helsinki í Finnlandi á morgun. Bandaríkjaforseti segir ekkert slæmt, og jafnvel eitthvað gott, geta hlotist af fundinum.

BBC greinir frá því að Trump ætli að spyrja Pútín út í Rússana tólf sem ákærðir hafa verið fyrir að brjótast inn í tölvukerfi Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016. Rússar hafa neitað ásökununum.

Trump segist þó ekki hafa íhugað að biðja um að mennirnir tólf verði framseldir til Bandaríkjanna, en engir framsalssamningar eru í gildi á milli landanna tveggja.

Margir hafa krafist þess að Trump aflýsi fundinum vegna ákæranna gegn rússnesku tólfmenningunum. Mótmælendur hafa streymt út á götur Helsinki og meðal annars kallað eftir mannréttindum og frelsi fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert