Átján slasaðir eftir árekstur báts

Frá vettvangi slyssins í Barentsburg í morgun.
Frá vettvangi slyssins í Barentsburg í morgun. Ljósmynd/Sýslumaðurinn á Svalbarða

Átján manns eru slasaðir, einn þeirra alvarlega, eftir að bátur í útsýnisferð með 121 ferðamann innanborðs sigldi á bryggjuna í námubænum Barentsburg á Svalbarða um tíuleytið í morgun, átta að íslenskum tíma.

Arve Johnsen, sýslumannsfulltrúi á norsku eyjunni Svalbarða, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í morgun að ekki sé fullljóst hvernig áreksturinn vildi til en eitthvað hafi farið úrskeiðis þegar áhöfnin stýrði bátnum að bryggju.

Sex hinna slösuðu voru fluttir á sjúkrahús til að huga nánar að sárum þeirra og fyrir rúmri klukkustund, rétt fyrir klukkan 11 að íslenskum tíma, lagði flugvél með níu manna lið lækna og hjúkrunarfræðinga af stað frá Háskólasjúkrahúsi Norður-Noregs (UNN) í Tromsø til aðstoðar á vettvangi. „Þessi liðsauki er nauðsynlegur til að styðja við hjálparaðgerðir þarna upp frá,“ segir Hilde Annie Pettersen hjá Háskólasjúkrahúsinu við NRK. „Þegar hópurinn kemur á staðinn verður metið hvort senda þurfi einhverja hinna slösuðu til Tromsø til að létta á álaginu á sjúkrahúsunum í Longyearbyen og Barentsburg.“

Dagblaðið VG ræðir einnig við Arve Johnsen og hefur eftir honum að lögreglan á staðnum notist við eigin þyrlu til að flytja hina slösuðu á sjúkrahúsið í Longyearbyen en það er höfuðstaður Svalbarða og liggur við Adventfjorden, tæpa 40 kílómetra frá Barentsburg.

Í Barentsburg, sem er kolanámubær, búa rúmlega 400 manns, flestir frá Rússlandi og Úkraínu. Allir íbúar bæjarins starfa hjá námufyrirtækinu Trust Arktikugol og trónir þar í bænum myndarleg stytta af Lenín fyrir framan byggingu sem gárungar kölluðu fyrr á tíð „fyrsta skýjakljúf norðurskautsins“ og Sovétmenn reistu árið 1974. Í henni búa reyndar allir íbúar Barentsburg.

Aðrar fréttir af slysinu en þær sem vísað hefur verið í:

Frá Aftenposten

Frá Dagbladet

Frá TV2

Og ein til fróðleiks um sögu Barentsburg, Lenínstyttuna og námuvinnslu Sovétmanna á svæðinu sem Aftenposten tók saman árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert