Tóku mann af lífi í kjölfar orðróms

Á síðustu tveimur mánuðum hafa fleiri en tuttugu verið teknir …
Á síðustu tveimur mánuðum hafa fleiri en tuttugu verið teknir af lífi með svipuðum hætti í landinu. AFP

Indversk lögregluyfirvöld hafa handtekið að minnsta kosti 25 manns eftir að múgur, sem taldi allt að tvö þúsund manns, tók mann af lífi án dóms og laga seint á föstudag. Réðst fólkið á manninn, hinn 27 ára Mohammad Azam, og tvo vini hans vegna gruns um barnsrán.

Vinir Azam eru alvarlega særðir eftir árásina, en grunur fólksins er rakinn til orðróms sem kvisaðist út á spjallforritinu WhatsApp. Aðeins eru nokkrir dagar síðan útgefendur WhatsApp létu birta auglýsingar í indverskum dagblöðum til að hjálpa fólki að koma í veg fyrir útbreiðslu falsfrétta og misvísandi upplýsinga með aðstoð forritsins.

Lögreglan segir Azam og vini hans hafa verið að snúa aftur til borgarinnar Hyderabad eftir að hafa heimsótt kunningja þeirra í nágrenninu. Þeir áðu á miðri leið og gáfu hópi barna, sem þar var saman kominn, súkkulaði sem einn þremenninganna hafði keypt í Katar.

Eitt barnanna hóf skömmu síðar að gráta, sem leiddi til þess að nærstaddir fullorðnir sökuðu mennina þrjá um að hafa illt í hyggju og að þeir hygðust ræna börnunum. Orðrómar um barnaránshringi á svæðinu höfðu þá gengið fjöllum hærra í héraðinu, samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Á síðustu tveimur mánuðum hafa fleiri en tuttugu verið teknir af lífi með svipuðum hætti í landinu, einnig eftir að hafa verið sakaðir um barnsrán, samkvæmt umfjöllun fjölmiðla landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert