„Allir eru frændur hér!“

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kom að heimili fjölskyldu sinnar í Kenía í dag en til landsins er hann kominn til að opna að nýju listamiðstöð fyrir ungmenni sem hálfsystir hans rekur. 

Obama heimsækir nú Kenía í fyrsta sinn frá árinu 2015. Þá gat hann ekki komið að húsi fjölskyldunnar þar sem forsetaþotan var of stór til að lenda á flugvelli í bænum Kisumu sem er í næsta nágrenni þess. 

„Það er gleðilegt að sameinast aftur svo mörgu fólki úr fjölskyldunni og fólki sem segist vera í fjölskyldunni. Allir eru frændur hér!“ sagði hann í gríni og uppskar mikinn hlátur viðstaddra. 

Í rútu með kjúklinga í fanginu

Í húsinu býr nú stjúpamma hans, Sarah Obama, en þar fæddist faðir hans og er jarðaður í grenndinni. Obama kom fyrst til Kenía er hann var 27 ára. 

Hann rifjar upp að hann hafi tekið „mjög hægfara“ lest frá höfuðborginni Naíróbí og svo rútu með „nokkra kjúklinga í fanginu“ og poka af sætum kartöflum sér við hlið. Svo þurfti hann að fara inn í smárútu, sem kallaðar eru „matatu“ og heimamenn nota mikið til að fara á milli staða.  „Þar var enn meiri troðningur enn í rútunni,“ sagði hann. Að endingu tók við löng ganga að húsi stjúpömmu hans. 

Hann segist hafa orðið að handsama kjúkling sem svo var eldaður. Hann heimsótti svo gröf föður síns og baðaði sig utan dyra. „Ég leit þá til himins og sá stjörnurnar og þetta var upplifun sem ekki væri hægt að fá á fimm stjörnu hóteli.“

Stoltur af systur sinni

Tilgangur heimsóknarinnar var að enduropna ungmennahúsið Sterkar raddir sem hálfsystir hans, Auma Obama, rekur. „Ég gæti ekki verið stoltari af því starfi sem systir mín vinnur.“

Í ungmennahúsinu munu börn og unglingar á svæðinu hafa aðgang að bókum, netinu og geta stundað íþróttir. Þau munu einnig geta sótt námskeið í siðfræði, umhverfisvernd og fjármálalæsi, svo dæmi séu tekin.

Við húsið er fótboltavöllur sem þýska þróunarmálaráðuneytið fjármagnaði. Þar er einnig körfuboltavöllur, bókasafn og tölvuver.

Samfélagið átti sig á ríkidæminu

„Ástæðan fyrir því að ég stofnaði þessa miðstöð er svo að samfélagið hér átti sig á hversu ríkt það er. Ég vil ekki að við verðum betlarar heldur að við stólum á okkur sjálf,“ sagði Auma við opnunina.

Obama segir að miðstöðin muni valdefla og mennta unga Keníabúa svo þeir verði færir um að breyta heiminum. Hann segir að miklar framfarir hafi orðið í Kenía á síðustu árum en að spilling og erjur innan og milli þjóðflokka væru enn vandamál sem þyrfti að útrýma. 

Obama kom til Kenía í gær. Hann fór þá í kurteisisheimsókn til Uhuru Kenyatta, forseta Kenía, sem og til Raila Odinga, leiðtoga stjórnarandstöðunnar. 

Var rekinn úr starfi

Faðir Obama, Barack eldri, fæddist í Kenía eins og fyrr segir. Obama segist ekki hafa þekkt föður sinn vel. Hann yfirgaf móður hans er Obama var tveggja ára og lést í bílslysi í Naíróbí árið 1982, þá 46 ára gamall. 

Barack eldri starfaði fyrir ríkisstjórn Jomo Kenyatta sem leiddi Kenía til sjálfstæðis frá Bretlandi. Þeim kom hins vegar ekki vel saman og það varð úr að Kenyatta, sem er faðir núverandi forseta, rak föður Obama úr starfi. Hann kom svo í veg fyrir að hann gæti fengið aðra vinnu og smám saman fór að halla undan fæti og glímdi hann síðustu æviárin við áfengissýki.

Barack Obama ávarpaði viðstadda við opnun ungmennamiðstöðvarinnar. Að baki honum …
Barack Obama ávarpaði viðstadda við opnun ungmennamiðstöðvarinnar. Að baki honum má sjá mynd af æskuheimili föður hans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert