Eitrið var í ilmvatnsflösku

Dawn Sturgess og Charles Rowley voru kærustupar. Sturgess lést af …
Dawn Sturgess og Charles Rowley voru kærustupar. Sturgess lést af völdum eitursins. AFP

Eitrið sem Bretinn Charlie Rowley komst í snertingu við í heimabæ sínum Amesbury á Englandi var í ilmvatnsflösku. Eitrið, novichok, er það sama og rússnesku Skripal-feðginin urðu fyrir barðinu á í Salisbury í mars.

Matthew Rowley, bróðir Charlies Rowley, upplýsti þeta í viðtali við BBC. Hann sagði að bróðir hans væri kominn til meðvitundar en væri enn alvarlega veikur. Hann segir hann hafa tekið upp ilmvatnsflösku sem eitrið var í og þannig komist í snertingu við það. Lögreglan neitar að tjá sig um málið í samtali við AFP-fréttastofuna.

Fyrir helgi greindi lögreglan frá því að lítil flaska með eitrinu hefði fundist á heimili Rowleys í Amesbury en bærinn er skammt frá Salisbury í suðvesturhluta Englands. 

Rowley veiktist þann 30. júní nokkrum klukkustundum eftir að kærasta hans, hin 44 ára Dawn Sturgess, hafði misst meðvitund eftir að hafa orðið fyrir eitrun. Sturgess lést 8. júlí.

Lögreglan segir að parið hafi komist í snertingu við stóran skammt af eitrinu og að það hafi handleikið hlut þar sem eitrið var að finna.

Borgarráðsmaðurinn John Glen sagði í samtali við BBC að parið leitaði oft í ruslatunnum og hefði líklega komist í snertingu við eitrið við þá iðju.

Sturgess var heimilislaus og bjó í athvarfi í bænum.

Sergei og Julia Skripal veiktust alvarlega af novichok í byrjun mars og fundust þá meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð í Salisbury. Þau eru bæði útskrifuð af sjúkrahúsi.

Bresk stjórnvöld hafa sakað Rússa um að standa að baki eiturárásinni en novichok var framleitt á rannsóknarstofum í Sovétríkjunum fyrir nokkrum áratugum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert