Engin undanþága fyrir Evrópuríki

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, og Federica Mogherini, utanríkisstjóri ESB. …
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, og Federica Mogherini, utanríkisstjóri ESB. Evrópuríkin hafa heitið því að standa við samkomulagið við Íran þrátt fyrir að Bandaríkjamenn geri það ekki. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa synjað beiðni Evrópusambandsins um að evrópsk fyrirtæki verði undanþegin refsiaðgerðum Bandaríkjanna í garð Íran.

Í bréfi til Evrópuríkja segir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að beiðninni hafi verið hafnað þar sem Bandaríkin vildu setja hámarksþrýsting á Íran. Undanþágur yrðu aðeins gerðar ef þær væru í þágu „bandarísks þjóðaröryggis“.

„Við munum reyna að halda uppi áður óséðum fjárhagslegum þrýstingi á írönsk stjórnvöld,“ segir í bréfinu sem einnig er undirritað af Steven Mnuchin fjármálaráðherra.

Refsiaðgerðirnar harkalegu voru tilkynntar í maí þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin út úr samkomulagi sem alþjóðasamfélagið–Evrópusambandið, Bandaríkjamenn, Bretar, Rússar, Frakkar og Kínverjar– höfðu gert við Íran þess efnis að landið léti af öllum kjarnorkutilraunum sínum og að refsiaðgerðum í garð ríkisins yrði þess í stað hætt.

Á grundvelli samkomulagsins hafa fjölmörg fyrirtæki, evrópsk og bandarísk, hafið viðskipti við Íran. Árið 2017 fluttu Evrópusambandsríki út vörur og þjónustu til Íran fyrir um 10,8 milljarða evra (1.350 milljarða króna) og fluttu inn fyrir 10,1 milljarð evra (1.260 milljarða króna).

Eftir að Bandaríkin riftu samkomulaginu og hófu á ný refsiaðgerðir í garð Íran óttast evrópsk fyrirtæki að viðskiptasambandi þeirra við Bandaríkin verði stefnt í hættu ef þau eiga einnig í viðskiptum við Írani.

Fyrr á árinu hóf Evrópusambandið endurlífgun á lögum sem myndi gera fyrirtækjum kleift að halda áfram viðskiptum við Írani.

Hin svokölluðu hindrunarlög (e. blocking statute) voru kynnt árið 1996 til að sneiða fram hjá þvingunum Bandaríkjanna í garð Kúbu. Þau voru þó aldrei notuð.

Uppfærð útgáfa laganna ætti að taka gildi fyrir 6. ágúst, þegar refsiaðgerðir Bandaríkjanna hefjast að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert