Kynferðisbrot skekja dýfingaheiminn

Dýfingasamband Bandaríkjanna er sakað um að hafa hundsað tilkynningar um …
Dýfingasamband Bandaríkjanna er sakað um að hafa hundsað tilkynningar um kynferðisofbeldi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Dýfingasamband Bandaríkjanna hefur verið sakað um að hundsa ábendingar um kynferðisofbeldi, í máli sem minnir um margt á kynferðisbrotaskandalinn sem kom upp í bandarískum fimleikaheimi fyrir örfáum árum.

Tvær ungar dýfingakonur hafa kært þjálfara innan vébanda dýfingasambandsins, Will Bohonyi, fyrir að hafa neytt þær til kynmaka á meðan hann starfaði sem dýfingaþjálfari við dýfingaklúbb Ohio State-háskóla.

Konurnar voru á táningsaldri er meint brot eru sögð hafa átt sér stað, en í frétt AFP-fréttaveitunnar um málið segir að önnur konan hafi verið nýorðin sextán ára gömul er þjálfarinn beitti hana kynferðislegu ofbeldi og neyddi hana til að eiga við sig kynmök, í júlí árið 2014.

Sambandið sakað um að neita að rannsaka ásakanir

Þjálfarinn hefur verið á bannlista hjá dýfingasambandinu frá því í febrúar árið 2015 fyrir brot á hegðunarreglum, sem sagt er tengjast ásökunum kvennanna í hans garð.

Í kæru kvennanna segir að dýfingasambandið hafi brugðist of seint við ábendingum þeirra, en sambandið mun ekki hafa sett Bohonyi á téðan bannlista fyrr en sex mánuðum eftir að hann var rekinn úr starfi sínu hjá Ohio-ríkisháskólanum vegna meintra brota.

Þjálfarinn er sagður hafa sannfært aðra konuna um að hún þyrfti að veita honum kynferðislega greiða til þess að geta haldið áfram á framavegi innan dýfingaheimsins.

„Hann notfærði sér aldur hennar, viðkvæmni og drauma um að keppa á Ólympíuleikum og notaði valdaójafnvægið á milli þeirra til að láta hana trúa því að hún þyrfti að þóknast honum kynferðislega í staðinn fyrir að komast í bandaríska landsliðið í dýfingum,“ segir í kærunni.

Því er haldið fram að bandaríska dýfingasambandið hafi í byrjun neitað að rannsaka fyrstu ásakanirnar í garð þjálfarans og ekki vikið frá þeirri stefnu fyrr en annar íþróttamaður kom fram með svipaðar ásakanir.

Dýfingasambandið sagði í tilkynningu í dag að það vildi tryggja að iðkendur innan sinna vébanda væru í öruggu umhverfi.

„Við tökum þessi mál mjög alvarlega,“ sagði talskona sambandsins, sem vildi ekki tjá sig frekar vegna málanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert