Reyndi að vinna ástir mannræningjans

Chloe Ayling og Lukasz Pawel Herba.
Chloe Ayling og Lukasz Pawel Herba.

Fyrirsætan Chloe Ayling var í haldi mannræningja í sex daga á síðasta ári en þegar hún slapp úr prísundinni og snéri aftur til Bretlands efuðust margir um sannleiksgildi sögu hennar. Hún segir konur í meirihluta þeirra sem gerðu lítið úr sér í kjölfar málsins.

Í nýju viðtali við BBC segist hún hafa gert allt sem hún gat til að láta mannræningjann verða ástfanginn af sér. Með þeim hætti hafi hún unnið sér inn traust hans og hann svo sleppt henni. 

Í viðtalinu lýsir hún því að fyrstu tvo dagana hafi hún verið hlekkjuð föst við kommóðu. Hún hafi svo fallist á að deila rúmi með mannræningjanum. „Eftir því sem við fórum að tala meira saman því meira samband myndaðist og þegar ég áttaði mig á því að honum var farið að líka vel við mig vissi ég að ég yrði að nýta mér það,“ segir hún. 

Ayling er tvítug og frá London. Hún segist hafa verið blekkt með gylliboðum um fyrirsætustörf til Mílanó á Ítalíu. Var henni sagt að hún ætti að fara í myndatöku Lukasz Herba. En hann hafði allt annað á prjónunum. Þetta var í júlí í fyrra.

Lögreglumaður ofan í tösku eins og þeirri sem mannræninginn setti …
Lögreglumaður ofan í tösku eins og þeirri sem mannræninginn setti Ayling ofan í er hann flutti hana út fyrir Mílanó. Lögreglan í Mílanó

Er hún mætti til myndatökunnar var hún sprautuð með ketamíni, hún berháttuð, handjárnuð og troðið ofan í tösku. Svo var hún sett í skott á bíl sem ók um 200 kílómetra leið að afskekktum bóndabæ.

Hún segir það hafa verið hryllilegt að koma á býlið þar sem Herba upplýsti hana að til stæði að selja hana sem kynlífsþræl ef hún gæti ekki greitt 300 þúsund evra lausnargjald, um 32 milljónir króna. „Ég hélt að allt sem hann sagði væri satt og ég efaðist ekki um það eitt augnablik því hann svaraði öllum spurningum mínum af mikilli nákvæmni,“ segir hún í viðtalinu við BBC.

Sá tækifæri og nýtti sér það

En hann spurði hana líka hvort hann mætti kyssa hana og hvort hún vildi vera ástarsambandi við sig. „Ég hugsaði að þetta væri tækifæri mitt til að sleppa.“

Hún segist hafa talað við hann um framtíð þeirra saman og sá að hann varð spenntur. „Þessi viðbrögð urðu til þess að ég áttaði mig á því að ég varð að halda þessu áfram.“

Þegar hann komst að því að lausnargjald yrði ekki greitt þá sleppti hann henni og ók henni að ræðismannaskrifstofu Bretlands í Mílanó. Fólk sem sá þau fyrir utan skrifstofuna, þar sem þau biðu þess að hún yrði opnuð, segjast hafa séð þau hlæja og grínast hvort í öðru.

Ayling skilur að þetta kunni að virðast undarlegt. „En af hverju ættir þú ekki að láta svona við manneskju sem er farin að bera ástarhug til þín og þú stólar á að sleppi þér úr haldi? Ég varð að gera allt sem ég gat svo að hann yrði ástfanginn af mér.“

Hlaut sextán ára fangelsisdóm

Herba, sem er pólskur ríkisborgari, var handtekinn og ákærður. Hann hlaut þann 16. júní rúmlega sextán ára fangelsisdóm vegna mannránsins.

Við réttarhöldin sagðist hann hafa hitt Ayling einu sinni og orðið ástfanginn af henni. Hann sagðist hafa viljað mikið fjaðrafok til að hjálpa henni að verða fræg fyrirsæta. 

„Ég skil enn ekki hvað hann ætlaðist nákvæmlega fyrir,“ segir Ayling. „Þetta snérist varla bara um peninga og hvers vegna hann valdi mig sem hann hafði gerst vinur á Facebook tveimur árum áður. Það er eins og hann hafi setið um mig allan þann tíma og hafi verið með mig á heilanum.“

Skömmuð fyrir klæðaburðinn

Ayling ræddi við blaðamenn fyrir utan heimili sitt í London eftir heimkomuna. Hún segir marga í kjölfarið hafa gagnrýnt sig fyrir að virðast glöð. Þá hafi fólk einnig sett út á fötin sem hún ákvað að vera í við þetta tækifæri.

Chloe Ayling ræddi við blaðamenn um leið og hún kom …
Chloe Ayling ræddi við blaðamenn um leið og hún kom til Bretlands. Hún var gagnrýnd fyrir að vera í stuttbuxum og flegnum bol af þessum tilefni.

Hún segist hafa verið glöð að vera komin heim þar sem hún hafði um tíma óttast að það myndi hún aldrei gera. Hún hafði nýstigið út úr flugvélinni og því klædd stuttbuxum og bol.  „Ég var bara ég sjálf. Ég fór að tala við blaðamennina því ég vildi að þeir færu burt en það gekk ekki.“

Hún segir að fólk hafi ætlast til að hún myndi gráta og loka sig af fyrir umheiminum. „Ég hefði getað gert það en ég hugsa að ég hefði ekki jafnað mig með þeim hætti. Að tala um þetta, vera í kringum fólk, var mín leið til að komast yfir þetta.“

Ayling hefur nú skrifað bók um reynslu sína. Hún segir það fáránlegt að enn sé fólk að efast um sögu hennar, þrátt fyrir að Herba hafi verið dæmdur fyrir mannránið. „Þetta særir mig því ég átti ekki von á því að ganga í gegnum eitthvað svona hræðilegt og vera svo ekki trúað af löndum mínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert