Rússnesk kona ákærð fyrir njósnir í BNA

Húsnæði dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna í Washington.
Húsnæði dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna í Washington. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa ákært 29 ára gamla rússneska konu, Maríu Butina, fyrir njósnir. Hún er sökuð um að hafa starfað í þágu rússneskra yfirvalda á bandarískri grundu, í því skyni að hafa áhrif á stjórnmál í Bandaríkjunum.

Butina er sögð hafa reynt að koma sér upp tengslum innan stjórnmálahreyfinga og hagsmunahópa í Bandaríkjunum samkvæmt fyrirskipunum háttsetts embættismanns í Rússlandi og nýta þau tengsl í þágu Rússlands.

BBC greinir frá því að ákæran á hendur Butina sé ekki hluti af rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.

Butina var handtekin á sunnudag í Washington, þar sem hún býr, og gistir fangageymslur. Hún verður færð fyrir dómara á miðvikudag, samkvæmt yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Lögmaður hennar, Robert Driscoll, segir ásakanir á hendur henni úr lausi lofti gripnar. Hún væri ekki rússneskur njósnari, heldur hefði hún verið í Bandaríkjunum við nám í alþjóðasamskiptum. Hún fluttist til Bandaríkjanna með vegabréfsáritun fyrir námsmenn árið 2016.

Umfjöllun Washington Post um málið.

Umfjöllun New York Times um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert